mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnumæling ekki ennþá ávísun á útgáfu kvóta

29. janúar 2009 kl. 17:14

mælst hafa 370 þús. tonn

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur lokið fyrri umferð mælingar á loðnugöngunni á svæðinu frá sunnanverðum Austfjörðum og norður að Kolbeinseyjarhrygg. Mælingin gaf ríflega 370 þúsund tonn sem ekki er nægjanlegt til þess að unnt sé gefa út veiðikvóta, en reiknað er með að 400 þús. tonn séu ávallt skilin eftir í sjónum til hrygningar.

Rannsóknaskipið sigldi á móti göngunni í þessari fyrri umferð mælingarinnar, en nú er seinni umferðin hafin þar sem skipið siglir í sömu stefnu og gangan hreyfist frá norðausturhorninu og suður með Austfjörðum. Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun tjáði Fiskifréttum að þegar siglt væri á móti göngunni, frá suðri til norðurs, væru líkindi til þess að stærð hennar væri vanmetin en þegar siglt væri með henni suður á bóginn væru hins vegar líkur á ofmati. Í gegnum tíðina hefði munurinn verið nokkur prósent.

Þessari síðari umferð skipsins lýkur væntanlega á sunnudag og mánudag ef veður leyfir og í framhaldi af því mun lokaniðurstaða liggja fyrir.

Talan sem nú liggur fyrir úr fyrri mælingunni er heldur hærri en fékkst þegar leitarskipin mældu í byrjun janúar síðastliðinn og töluvert hærri en rannsóknaskipið mældi dagana strax þar á eftir.

Hærri mæling en í fyrra fyrir austan

Þá má nefna að mælingin úti af Austfjörðum í fyrra gaf aðeins 270 þúsund tonn, en síðan bættist við öllum á óvörum loðnutorfa sem kom upp að Suðurlandi í febrúar og varð hún þess valdandi að unnt varð að bjarga vertíðinni. Þorsteinn segir að þeir hafi enn ekki fengið neina skýringu á því hvaða leið sú torfa fór.

,,Það verður að segjast að útlitið er ekki gott fyrir vertíðina en jákvæði þátturinn er þó sá að við erum komin það nálægt því að mæla 400 þúsund tonn að nokkuð tryggt er að hrygningarstofninn sé nægilega stór til þess að viðhalda stofninum. Það er léttir að vita af því með hliðsjón af þeim mælingum sem við fengum snemma í janúar,” sagði Þorsteinn Sigurðsson.