mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuvertíð að ljúka í vikulok?

11. mars 2008 kl. 15:10

Nú sér fyrir endann á loðnuvertíðinni miðað við þann kvóta sem búið er að gefa út en í Vestmannaeyjum er unnið allan sólarhringinn í hrognavinnslu. Ekki er útlit fyrir að fryst verði jafn mikið af loðnuhrognum og á árinu 2007 en allt bendir til þess að loðnuvertíð ljúki í vikulok, segir á vefnum sudurlandid.is

Hjá Vinnslustöð og Ísfélagi er nú unnið allan sólarhringinn í landi en hrognavinnsla hófst hjá báðum fyrirtækjum fyrir rúmri viku síðan. Þá urðu loðnuhrognin frystingarhæf fyrir Japansmarkað en þar fæst hæsta kaupverðið fyrir fryst loðnuhrogn.

Björn Brimar Hákonarson, framleiðslustjóri Ísfélagsins, segir að unnið hafi verið á vöktum síðan loðnuveiðibanni var aflétt 27. febrúar síðastliðinn og að félagið eigi um 4.000 til 5.000 tonn eftir af loðnukvóta sem dugi væntanlega út vikuna.

 Hjá Vinnslustöðinni eru svipaðar fréttir að hafa, þar eru um 5.000 tonn eftir af kvótanum og útlit fyrir að vertíðinni ljúki í vikulok. Sigurjón Gísli Jónsson, framleiðslustjóri segir að þar sé unnið á vöktum allan sólarhringinn og að vinnslan gangi vel. Sigurjón bætir því við að allt benti til þess að minna magn af loðnuhrognum verði á boðstólum fyrir kaupendur erlendis vegna minni loðnuveiða, miðað við árið 2007. Hann segir að vegna þessa hafi japanskir kaupendur jafnvel slakað á kröfum sínum varðandi gæði.