sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Loðnuvertíðin að klárast

14. mars 2008 kl. 11:13

Flest bendir til þess að loðnuvertíðin klárist nú um helgina. Um tugur loðnubáta var að veiðum í Faxaflóa í morgun og var lítið að hafa. Ef veiðin heldur ekki áfram er ljóst að ekki næsta að klára kvótann en óvíst er hvað mikið verður skilið eftir.

,,Mér sýnist að vertíðinni sé að ljúka en við vonumst þó til að geta veitt eitthvað meira. Við fengum um 130 tonn í gær, mesta af hængi, þannig að loðnan hér er búin að hrygna,“ sagði Guðmundur Sveinbjörnsson, skipstjóri á Krossey SF í samtali við Fiskifréttir í morgun. Krossey átti þá eftir að veiða um 1.600 tonn af kvóta skipsins og leitaði loðnu í Faxaflóa.

Samkvæmt vef Fiskistofu var búið að tilkynna um löndun á 125 þúsund tonnum af loðnu í morgun af um 157 þúsund tonna kvóta. Inn í þessar tölur vantar nýjustu landanir og landanir vinnsluskipa þannig að ekki eru öll kurl komin til grafar enn.

Í morgun voru nokkur skip einnig að leita að loðnu úti fyrir Suðurlandi og þrjú skip fóru vestur að Snæfellsnesi að kanna svæðið þar. Enn er von um að einhver loðna finnist en þeir skipstjórar sem Fiskifréttir ræddu við í morgun töldu þó að flest benti til þess að vertíðinni væri að ljúka.