fimmtudagur, 23. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Losun frá sjávarútvegi hefur minnkað um helming

svavar hávarðsson
8. nóvember 2018 kl. 13:30

Einu jákvæðu tölurnar úr losunarbókhaldi Íslands koma frá sjávarútvegi – þar hefur markmið Parísarsamkomulagsins náðst fyrir löngu. Mynd/Guðmundur St. Valdimarsson

Heildarlosun frá íslenska hagkerfinu hefur stóraukist á meðan sjávarútvegur losar sífellt minna.

Samkvæmt losunarbókhaldi fyrir hagkerfi Íslands var losun frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og matvælaframleiðslu árið 2016 helmingi lægri en losun frá greininni árið 1995. Losun frá ferðaþjónustu – sem skýrist fyrst og síðast af millilandaflugi - hefur ríflega fimmfaldast á sama tímabili og nær þrefaldast frá árinu 2012.

Þetta kemur fram í gögnum sem Hagstofa Íslands birtir. Þar kemur fram að losun í sjávarútvegi og matvælaframleiðslu kemur fyrst og fremst vegna olíunotkunar hjá skipum, en einnig er notkun olíu til suðu og bræðslu í framleiðslu nokkur.

„Samdráttur í losun frá greininni hefur verið meiri en bein fækkun skipa myndi benda til. Frá 1999 til 2016 fækkaði skipum um 18% á meðan losun dróst saman um 50%,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Gjörbreytt staða

Í greiningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á þessum tölum kemur fram að til ársins 2003 var losun frá sjávarútvegi mest allra geira í atvinnulífinu. Þessi staða hefur hins vegar gjörbreyst samhliða bættri fiskveiðistjórnun, fjárfestingu í tækjum og búnaði, fækkun skipa auk umsvifa annarra geira. Hafa ber hugfast að fiskeldi er meðtalið inn í þessum tölum um fiskveiðar, en umsvif þess hefur stóraukist á undanförnum árum.

„Gefur því auga leið að samdrátturinn í losunin frá fiskveiðum einum og sér er talsvert umfram þessi 43%. Var hlutdeild sjávarútvegs og matvælaiðnaðar af heildarlosun í hagkerfinu komið niður í 9% árið 2016 en hafði verið 35% árið 1995,“ segir þar.

Minnkar enn frekar

Orkustofnun birti á sama tíma og Hagstofan tölur um olíunotkun hér á landi sem ná fram til ársins 2017 og gefa þær góða mynd af því hvernig ofangreindar tölur Hagstofunnar um losun koma út fyrir það ár.

„Niðurstaðan er því miður ekki hagfelld fyrir hagkerfið í heild sinni, en samkvæmt þeim hefur heildarnotkun olíu á Íslandi aldrei verið meiri en hún var í fyrra í að minnsta kosti 36 ár, eða eins langt aftur og tölur Orkustofnunar ná. Nam notkunin 965 þúsund tonnum á árinu og jókst um rúm 96 þúsund tonn frá fyrra ári, eða sem nemur rúmum 11%. Á sama tíma var olíunotkun í sjávarútvegi sú minnsta á tímabilinu og dróst olíunotkun fiskiskipa saman um rúm 6% á milli ára,“ segir í greiningu SFS.

Flugið vegur þyngst

Tölur Hagstofunnar sýna ennfremur að losun frá málmvinnslu árið 2016 var fjórum sinnum meiri en árið 1995. Losun jókst umtalsvert árin 1998 og 2008 í samræmi við fjölgun fyrirtækja í greininni.

Í ferðaþjónustu kemur losun fyrst og fremst frá flugi, en umsvif íslenskra flugfélaga hafa vaxið mjög ört síðustu sex ár. Í losunarbókhaldinu er ekki gerður greinarmunur á því hvort starfsemin fari fram á Íslandi eða erlendis, eða hvort verið sé að þjónusta ferðamenn, eða fólk búsett á Íslandi.

Hagstofan bendir á að losunin hefur beina fylgni við fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll. Frá 2012-2013 jókst fjöldi farþega um Keflavík jafnt og losun, eða 14%. Á árunum 2015-2016 fjölgaði farþegum um Keflavíkurflugvöll nær 35%. Losun frá greininni jókst um 36%. Þessi fylgni er hins vegar að hluta til tilviljun. Nokkur hluti farþega um Keflavíkurflugvöll ferðast með erlendum flugfélögum, sem teljast ekki með í AEA tölunum. Á sama tíma hafa umsvif íslenskra flugfélaga án viðkomu í Keflavík aukist.

Losun frá heimilum í hámarki 2007

Losun frá íslenskum heimilum árið 2016 var 30% hærri en árið 1995. Losun frá heimilum er fyrst og fremst vegna aksturs en einnig er tekið tillit til notkunar eldunargass, hitunarolíu og flugelda. Flug, strætóferðir, sorplosun, notkun rafmagns og jarðvarma telur ekki inn í losun heimila, heldur reiknast á viðeigandi atvinnugreinar

Losun koltvísýrings frá heimilum á mann náði hámarki árið 2007, eða 1,96 tonn koltvísýrings á einstakling. Árið 2016 var losun heimilanna 1,7 tonn á mann, sú losun er sambærileg og frá meðalstórum fjölskyldubíll sem ekið er 8.000 kílómetra.

Heildarlosun tvöfaldast

Losun frá hagkerfi Íslands hefur tvöfaldast frá árinu 1995. Árið 2008 náði losunin 4.600 kílótonnum, en lækkaði lítillega á sama tíma og hagkerfið dróst saman til ársins 2012. Árið 2016 var losunin komin upp í 5.700 kílótonn, sem er hæsta gildi frá 1995.