föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílþjóðirnar deila áfram hver við aðra

2. nóvember 2009 kl. 12:03

Enginn árangur varð af samningafundi um skiptingu makrílveiða á fundi sem viðkomandi ríki héldu í Cork á Írlandi í síðustu viku. Færeyingar vilja aukna hlutdeild í kvótanum, Norðmenn og Evrópusambandið deila um rétt norskra skipa til veiða í ESB-lögsögunni og Íslendingar eru áfram úti í kuldanum.

Núverandi skipting makrílkvótans er á þann veg að ESB er með 65%, Noregur 30% og Færeyjar 5%. Það sem helst stendur í vegi fyrir samkomulagi þessara þjóða er krafa Færeyinga um aukinn hlut í makrílkvótanum. Þeir hafa ekki komið fram með ákveðna tölulega kröfu, en samkvæmt heimildum norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren sjá þeir fyrir sér helmings aukningu færeyska kvótans eða úr 5% í 10%. Það myndi þýða 57.000 tonna afli á næsta ári samanborið við 29.000 tonn í ár ef reiknað er út frá kvótaúthlutun þessa árs.

Færeyingar byggja kröfu sína á því að makríllinn haldi sig nú meira í færeyskri lögsögu en áður. John Spencer samningamaður ESB segir í samtali við norska blaðið að útilokað sé að fallast á aukningu makrílkvóta Færeyinga núna. Jafnvel þótt viðurkennt sé að útbreiðsla makrílsins sé norðlægari en áður þurfi að kortleggja það með vísindalegum hætti.

Náist ekki samkomulag milli þeirra ríkja sem funduðu á Írlandi í síðustu viku getur það haft áhrif á gagnkvæmar veiðiheimildir þeirrar í öðrum tegundum í lögsögum hverrar annarrar.