sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makríll: Vinnslustöðin með mesta veiðireynslu

23. júlí 2009 kl. 12:00

 Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og tengt félag er sú útgerð sem hefur skapað sér mesta veiðireynslu í makríl síðastliðin 3 ár. Þessar upplýsingar koma fram í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

  Huginn VE er með mestu veiðireynslu uppsjávarskipa síðustu þriggja ára í makríl, eða tæp 18 þúsund tonn, samkvæmt samantekt Fiskifrétta sem byggð er á tölum frá Fiskistofu. Fyrir árið í ár er miðað við aflastöðuna 17. júlí síðastliðinn. Huginn er jafnframt það skip í flotanum sem hefur einna mest lagt sig eftir því að vinna aflann um borð til manneldis. Í öðru sæti er Margrét EA með tæp 17 þúsund tonn á tímabilinu og í því þriðja er Börkur NK með rúm 15 þúsund tonn.

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum og Huginn ehf. er sú útgerð sem státar af mestri veiðireynslu í makrílnum með 19,2% hlutdeild í afla síðustu þriggja ára. Munar þar að sjálfsögðu mestu um afla Hugins VE, sem er í eigu Hugins ehf. en Vinnslustöðin á fast að helmings hlut í því félagi. Ísfélag Vestmannaeyja kemur þar á eftir með 16,6% og Síldarvinnslan í Neskaupstað er í þriðja sæti með 14,6%. Síldarvinnslan á 38% hlut í Runólfi Hallfreðssyni ehf. sem gerir út Bjarna Ólafsson AK. HB Grandi fylgir svo fast á hæla Síldarvinnslunnar. Níu útgerðir koma hér við sögu og þar af eru þrjár stærstu útgerðirnar með um 50% veiðireynslunnar.

Ef makrílkvóta verður skipt niður á skip samkvæmt veiðireynslu síðustu þriggja ár eins og tíðkast hefur er líklegt að kvótinn skiptist í þeim hlutföllum á útgerðir sem nefnd eru hér að framan.

Sjá nánar í úttekt í nýjustu Fiskifréttum.