mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílveiðar: Danir saka Norðmenn um hræsni

19. janúar 2010 kl. 15:00

Samtök danskra fiskframleiðenda skjóta nú föstum skotum að frændum sínum Norðmönnum og saka þá um hræsni í afstöðu til stjórnunar á veiðum á makríl og hrossamakríl, að því er fram kemur á vef IntraFish.

Haft er eftir Christian Olesen, framkvæmdastjóra hjá framleiðendum uppsjávarfiska í Hirtshals í Danmörk, að hræsni Norðmanna felist í því að þeir taki afstöðu til grundvallarmála í fiskveiðistjórnun eingöngu út frá því hvað hentar þeim sjálfum í hvert sinn. Það kæmi skýrt í ljós í gagnrýni Norðmanna á makrílveiðar Íslendinga.

,,Norðmenn gera nákvæmlega sama í veiðum á hrossamakríl og þeir saka Íslendinga um við veiðar á makríl. Hrossamakríll er stofn sem kemur öðru hvoru inn í norska lögsögu. ESB hefur verið með ákveðnar veiðitakmarkanir á hrossamakríl í áraraðir. Í Noregi eru ekki slíkar takmarkanir,“ segir Christian Olesen.

Hann segir að Norðmenn hafi upphaflega sett 54 þúsund tonna heildarkvóta fyrir hrossamakríl fyrir norsk skip og þar með eignað sér einhliða 30% af því sem ICES (Alþjóðahafrannsóknaráðið) ráðlagði að veitt yrði. Það hafi ekki dugað því heildarkvóti norskra skipa hafi verið hækkaður tvisvar. ,,Í fyrstu var kvótinn hækkaður í 75 þúsund tonn og síðan í 105 þúsund tonn. Það samsvarar 60% af ráðlagðri veiði. Jafnvel Íslendingar áskilja sér ekki rétt til að veiða 60% af makrílnum en Norðmönnum finnst það vera í lagi þegar málið snýr að þeim varðandi hrossamakríl. Það er þörf á því að þeir hverfi frá hentistefnu í þessum málum,“ segir Christian Olesen.