föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Makrílveiðar í ár mega verða jafnmiklar og í fyrra

13. mars 2009 kl. 16:43

Í dag hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gefið út reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2009.  Þar segir að fari heildarafli íslenskra skipa í makríl á árinu 2009 yfir 112.000 lestir, þar af 20.000 lestir á alþjóðlegu hafsvæði utan lögsögu ríkja, ákveði ráðherra hvort veiðar á makríl skuli bannaðar eða takmarkaðar með einhverjum hætti. Þetta er um það bil sami afli og veiddur var á síðustu vertíð.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir:

Um árabil hafa íslensk stjórnvöld mótmælt veiðistjórnun NEAFC á makríl og er Ísland því ekki bundið af henni. Mótmælin hafa verið sett fram á grunni þess að hingað til hefur strandríkjaréttur Íslands ekki verið viðurkenndur af öðrum strandríkjum.

Ástæða er til að ætla að réttur Íslands verði viðurkenndur, m.a. í ljósi aukinna veiða í íslenskri lögsögu, og Ísland muni því í náinni framtíð verða fullgildur þátttakandi í samningaviðræðum um veiðistjórnun á makríl.

Fyrir liggur að mikil verðmæti liggja í nýtingu makrílstofnsins og þá ekki síst til manneldis. Á síðasta ári fóru liðlega 5% af heildarmakrílafla íslenskra skipa til vinnslu til manneldis sem skilar umtalsvert meiri verðmætum en fari aflinn til bræðslu og er auk þess meira í anda sjálfbærrar þróunar. Er því sérstaklega hvatt til þess af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að útgerðir leitist við að vinna sem mest af makrílafla sínum til manneldis.

 Þá er það skoðun ráðherra að þegar og ef til úthlutun aflahlutdeildar komi,  þurfi að eiga sér stað málefnaleg umræða, hvort taka eigi tillit til að hvaða marki veiðiskip hafi eða geti veitt makrílafla til manneldis og þá hvort þau njóti þess  sérstaklega við úthlutun.