laugardagur, 17. nóvember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meðalaldur fiskiskipa nærri þrjátíu ár

4. desember 2017 kl. 08:00

Frá skipasmíðastöð í Tyrklandi fyrr á árinu, þar sem Björgúlfur EA og Kaldbakur EA voru í smíðum. AÐSEND MYND

Fiskiskipaflotinn eldist hratt þrátt fyrir mikla endurnýjun togaraflotans

Sex nýir togarar hafa komið til landsins á þessu ári, von er á einum til viðbótar fyrir árslok og samið hefur verið um smíði á átta togurum til viðbótar sem væntanlegir eru á næstu árum.

Þetta kemur fram í riti Íslandsbanka, Íslenski sjávarútvegurinn 2017, sem kynnt var í síðasta mánuði. Þar hafa sérfræðingar bankans dregið saman mikið magn af upplýsingum um stöðu íslensks sjávarútvegs.

Þeim telst til að nú séu 1.647 fiskiskip gerð út hér á landi, og hefur skipum fækkað talsvert frá árinu 2001 þegar þau voru 2.012.

Fækkunin nemur 18 prósentum og hefur togurum fækkað mest á þessu tímabili eða um 46 prósent. Þeir voru 80 árið 2001 en eru 43 núna.

Af heildarskipaflota landsmanna eru 857 opnir fiskibátar eða um 52 prósent flotans. Hlutfall þeirra hefur aukist nokkuð því árið 2010 voru þeir 49,7 prósent flotans, samkvæmt tölum Íslandsbanka.

Svigrúm til fjárfestinga
Þessi misserin stendur yfir mikil endurnýjun togaraflotans, enda hefur góð afkoma í greininni skapað töluvert svigrúm til fjárfestinga.

Sú fjárfesting nær þó lítt til annarra skipa en togara, þannig að meðalaldur fiskiskipaflotans í heild hefur haldið áfram að hækka. Sum skipanna eru komin á sextugsaldur þannig að hluti flotans er orðinn verulega gamall.

Meðalaldur skipanna var um 29 ár árið 2016 og hafði þá hækkað um eitt ár frá árinu 2015. Á árunum 1999 til 2016 hækkaði meðalaldur flotans um rúm tíu ár og telst hann vera orðinn býsna hár núna í sögulegu samhengi.

gudsteinn@fiskifrettir.is