sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Megum ekki draga úr því öryggi sem þyrlurnar veita okkur

5. mars 2009 kl. 14:51

segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ

„Við megum ekki undir neinum kringumstæðum draga úr því öryggi sem þyrlurnar veita okkur," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ á vef LÍÚ og lýsir áhyggjum sínum yfir þeim áhrifum sem niðurskurður ríkisútgjalda hefur á starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Friðrik dregur ekki dul á að nauðsynlegt sé að draga úr ríkisútgjöldum við núverandi aðstæður en segir að ekki megi vega að ákveðnum grunnþáttum á borð við þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar. Henni sé ætlað að sinna mjög víðfeðmu hafsvæði og öryggishlutverk hennar fyrir íslenska sjómenn sé afar mikilvægt.

„Við verðum auðvitað að horfa til þess að upp geta komið tilvik þar sem tími er svo naumur til björgunar að þyrla er eina tækið sem sjómenn geta treyst á," segir Friðrik.  En hvað er til lausnar?

„Það verður einfaldlega að skera niður á öðrum sviðum og við erum reiðubúnir til að koma með tillögur þar að lútandi sé þess óskað," segir Friðrik.