mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Meiri fæða í maga grænlenska þorsksins en þess íslenska

12. desember 2008 kl. 17:46

Til viðbótar við hefðbundna stofnmælingu í haustrall Hafrannsóknastofnunar var Árni Friðriksson þrjá daga við rannsóknir á þorski í grænlenskri lögsögu.

Voru teknar 22 togstöðvar á afmörkuðu svæði vestur af Víkurál. Þorskurinn var lengdarmældur, vigtaður, kvörnum til aldursgreininga safnað og fæða úr mögum greind. Að auki voru 367 þorskar merktir.

Í frétt Hafrannsóknastofnunar í dag segir:

„Þorskafli á togstöðvunum sem voru teknar í grænlenskri lögsögu var mjög breytilegur, oft mjög lítill en fór mest upp í rúm 5 tonn í togi. Það sem einkenndi þorskinn var mjög gott holdarfar og há meðalþyngd eftir aldri. Var slægð þyngd þorsks af tiltekinni lengd (í þessu tilfelli 70 cm) um 15% meiri en í stofnmælingu að hausti. Fæðurannsóknir sýndu að fiskurinn í grænlenskri lögsögu var að meðaltali með um þrisvar sinnum meiri fæðu í maga en þorskur í íslenskri lögsögu. Var fæðan mest laxsíldar og fisktegundin skjár."

Því má bæta við í þessu sambandi að togaraskipstjórar á grálúðuslóð vestur af landinu hafa ítrekað orðið varir við þorsk óvenjudjúpt og hafa þeir getið sér þess til að hann gengi á milli grænlenskrar og íslenskrar lögsögu.