þriðjudagur, 21. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Menn líta bjartsýnir til sumarsins

Guðsteinn Bjarnason
2. maí 2019 kl. 15:04

Á strandveiðum. Mynd/HAG

Strandveiðar hefjast í dag með tólf daga tryggða í hverjum mánuði og heimild til ellefu þúsund tonna heildarafla

„Við höfum merkt ágætan áhuga á veiðunum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Menn líta bjartsýnir til sumarsins.“

Alþingi gerði í apríl breytingar á lögum um strandveiðar, þar sem bráðabirgðafyrirkomulag síðasta árs var fest í sessi. Landssambandið hefur fagnað þeim breytingum, ekki síst vegna þess að nú er tryggt að menn geti veitt tólf daga í hverjum mánuði á tímabilinu frá maíbyrjun til ágústloka.

Síðastliðinn mánudag var síðan gefin út reglugerð um strandveiðar þar sem heildaraflaheimild strandveiðanna hefur verið hækkuð upp í 11 þúsund tonn.

12 dagar tryggðir
„Þá minnkar hættan á því að veiðar verði stöðvaðar, ég held að engin hætta sé á því. Auðvitað má segja að það geti verið misjöfn aflabrögð eftir því á hvaða svæði menn eru, en það er tryggt að það séu tólf dagar á öllum svæðum.“

Örn vonast síðan til þess að fyrirkomulagið verði aftur tekið til skoðunar í haust eftir að veiðunum lýkur.

„Þá reikna ég með að sérstaklega verði litið til þess hvernig fiskgengdin er umhverfis landið. Hvort ástæða sé til að lengja tímann jafnvel upp í sex mánuði og menn geti þá valið fjóra samfellda mánuði.“

Lögskráning nauðsynleg
Jón Páll Ásgeirsson, yfirstýrimaður á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, sem fylgist meðal annars með lögskráningum áhafna á strandveiðibátunum hjá Landhelgisgæslunni, segir fulla þörf á því að minna menn á að lögskrá sig.

Hann segir að fyrstu ár strandveiðanna hafi verið talsverður misbrestur á því að staðið hafi verið rétt að þessum málum en staðan hafi síðan batnað mikið síðustu ár. Engu að síður sé ástæða til að minna sjómenn á að séu þeir ekki lögskráðir eru þeir ekki heldur slysatryggðir. Beita má sektum fyrir vanrækslu á lögskráningu.