mánudagur, 25. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mest fiskneysla í Suður-Kóreu

17. febrúar 2017 kl. 11:31

Fiskmarkaður í Suður-Kóreu.

Evrópubúar eru neðarlega á listanum

Íbúar í Suður-Kóreu borða meira af fiski en íbúar nokkurs annars ríkis í heiminum, að því er fram kemur á vef FishUpdate. Vitnað er  í skýrslu frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Hver íbúi í Suður-Kóreu borðar að meðaltali 54,8 kíló af fiski á ári. Norðmenn eru í öðru sæti með 53,4 kíló á mann og Japan í því þriðja með 50,2 kíló. Mikil fiskneysla er einnig í Kína en hver Kínverji borðar 39,5 kíló af fiski á ári að meðaltali.

Evrópubúar eru neðarlega á listanum en þar er meðalneysla á mann 22 kíló. Evrópa er neðar en Ameríka þar sem neyslan er 23,7 kíló. Ekki kemur fam í fréttinni hver fiskneyslan er á Íslandi. 

Í skýrslunni er því spáð að fiskneysla muni aukast í heiminum sérstaklega í löndum Asíu.