sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mestur afli á minnstu krókana

14. október 2009 kl. 16:31

,,Mestur afli fékkst jafnan á minnstu krókana og virðast stórir krókar fyrst og fremst leiða til aflataps. Á sama hátt skiptir máli að velja beitustærð í samræmi við bæði tegund og stærð bráðar.”

Þetta kemur m.a. fram í niðurstöðum samanburðarrannsókna á króka- og beitustærðum sem Hafrannsóknastofnun hefur unnið að. Í frétt frá stofnuninni segir að við línuveiðar geti val á krókum og beitu haft afgerandi áhrif á aflamagn og aflasamsetningu. Með því að vanda valið geti sjómenn því haft veruleg áhrif á bæði afkomu sína og hlutfall undirmálsfisks í afla.

Ólafur Arnar Ingólfsson sjávarútvegsfræðingur heldur erindi um niðurstöður rannsóknanna næstkomandi föstudag klukkan 12,30 í fundarsal Hafró að Skúlagötu 4, fyrstu hæð. Fundurinn er öllum opinn.  Erindið nefnist "Áhrif krókastærða og beitustærða á aflamagn og aflasamsetningu við línuveiðar".