sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metár í fjárfestingum í fyrra

30. nóvember 2018 kl. 12:50

Góð afkoma sjávarútvegsins árin 2008-2015 virðist fyrst um sinn hafa farið í niðurgreiðslu skulda.

Met var sett í fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi árið 2017. Tækniframfarir undanfarinna ára hafa verið svo örar að talað hefur verið um fjórðu iðnbyltinguna.

Þetta kemur fram í greiningu Arion banka á íslenskum sjávarútvegi sem birt var í dag.

Þar segir að góð afkoma sjávarútvegsins árin 2008-2015 virðist fyrst um sinn hafa farið í niðurgreiðslu skulda en undanfarin ár hafa fjárfestingar hins vegar tekið allverulega við sér. Fjárfestingar í sjávarútvegi voru umfram EBITDA í fyrsta skipti í fyrra sem leiðir til þess að hreinar skuldir hækka.

„Afkoma af rekstri eins og hún var í fyrra dugir ekki ein til að standa straum af svo miklum fjárfestingum en bætt fjárhagsstaða hefur hins vegar skapað svigrúm til aukinnar lántöku. Í því samhengi má benda á að fjármögnunarkostnaður sjávarútvegsfyrirtækja virðist hafa farið lækkandi fram til 2017 en teikn eru á lofti um að hann muni hækka á næstu misserum. Hækkandi fjármagnskostnaður og mikil fjárfestingarþörf leiðir til þess að þörf gæti víða skapast fyrir aukna stærðarhagkvæmni til að tryggja arðsemi fjárfestinganna,“ segir í greiningunni sem er afar ítarleg.