mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metár í ýsuveiðum og síldarafli með mesta móti

12. september 2008 kl. 10:40

Síldarafli nýliðins fiskveiðiárs var rúmlega 367 þúsund tonn sem setur það í hóp mestu síldarára. Einnig var metár í ýsuveiðum en alls veiddu íslensk skip 111 þúsund tonn af ýsu á fiskveiðiárinu.

Á Íslandsmiðum hefur aðeins einu sinni áður veiðst meira af ýsu en það var árið 1962. Þá varð heildarýsuaflinn 118 þúsund tonn og erlend skip veiddu meira en helming aflans eða 64 þúsund tonn.

Ýsuafli íslenskra skipa 1962 var 54 þúsund tonn. Þetta kemur fram í frétt á vef Fiskistofu.

Afli fiskveiðiársins 2007/2008 sem lauk 31. ágúst síðastliðinn varð liðlega 1.253 þúsund tonn samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu. Það er tæplega 167 þúsund tonnum minni afli en fiskveiðiárið á undan en þá nam heildaraflinn 1.420 þús. tonnum.

Munar þar mest 53 þúsund tonna samdrátt í botnfiskafla, 77 þúsund tonnum minni kolmunnaafla og 159 þúsund tonna samdrátt í loðnuafla. Á móti kemur 71 þúsund tonna aukning makrílafla og meiri síldarafli.

Heildarafli ársins 2008 var í lok ágúst 918.138 tonn. Á sama tíma í fyrra var aflinn 1.065.077 tonn.   107 þús. tonn af makríl í sumar

Heildaraflinn í nýliðnum ágústmánuði var 142 þúsund tonn. Það er rúmlega 52 þúsund tonna aukning í afla milli ára. Í nýliðnum ágúst veiddust liðlega 40 þúsund tonn af markíl en aflinn var rúmlega 14 þúsund tonn í ágúst í fyrra.

Sumarið gaf 107 þúsund tonn af makríl á tímabilinu júní - ágúst sem er meira en 70 þúsund tonna aukning frá fyrra ári.

Í ágústmánuði nú var landað 62 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld sem er tvöfalt meiri síldarafli en á sama tíma í fyrra.