mánudagur, 25. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Metverðmæti sjávarafurða á Nýfundnalandi

17. mars 2017 kl. 14:00

Laxeldi í Kanada.

Aukin verðmæti má einkum rekja til vaxandi framleiðslu í fiskeldi 2016

Framleiðsluverðmæti sjávarafurða á Nýfundnalandi og Labrador nam rúmlega 1,4 milljörðum Kanadadollara (um 115 milljörðum ISK) á árinu 2016 sem er um 8,9% aukning frá árinu áður. Þetta er metframleiðsla að því er fram kemur á vefnum fis.com.

Aukin verðmæti má einkum rekja til vaxandi framleiðslu í fiskeldi. Eldistegundir standa á bak við um 19,2% af framleiðsluverðmæti sjávarafurða árið 2016 á móti 12,2% árið áður. Villtar tegundir skapa þá 80,8% verðmætanna á síðasta ári.

Við sjávarútveg á Nýfundnalandi og Labrador vinna 17.472 manns í 400 sjávarbyggðum.  Þar af eru 9.490 sjómenn.

Ef litið er á villtar tegundir eru skelfiskveiðar mikilvægastar, svo sem rækjuveiðar. Um helmingur af lönduðum afla er skelfiskur og skilar hann um 80% af aflaverðmæti. Samdráttur varð í rækjulöndun um 33,8% og nam hún alls 47.900 tonnum árið 2016 að verðmæti 204 milljónir Kanadadollara (16,7 milljarðar ISK).

Á síðasta ári var landað 2.770 tonnum af humri sem er svipað magn og árið 2015. Vegna verðhækkunar jókst aflaverðmætið um 7,2% og nam alls um 35 milljónum Kanadadollara (2,9 milljörðum ISK).

Botnfiskafli var 41.600 tonn á árinu 2016 og aflaverðmæti 118 milljón dollara (9,6 milljarðar ISK). Botnfiskur er 18,7% af lönduðum afla en 16,6% af aflaverðmætum. Sandhverfa skilar langmestum aflaverðmætum botnfisktegunda.

Fiskeldi náði hámarki á árinu 2016 og var þar aðallega um atlantshafslax að ræða. Í heild voru framleidd 28.622 tonn af eldisfiski og jókst framleiðslan um 25,5% á milli ára.