sunnudagur, 21. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill straumur og erfitt viðureignar

12. janúar 2018 kl. 08:00

Margeir Jóhannesson skipstjóri á Þórsnesi SH. Mynd/Þorgeir Baldursson

Þórsnes SH á netaveiðum fyrir vestan

Nýtt Þórsnes SH 109, sem leysti eldra Þórsnes af hólmi síðastliðið sumar, hefur verið á netaveiðum fyrir vestan. Báturinn var á landleið þegar slegið var á þráðinn til Margeirs Jóhannessonar skipstjóra. Það hafði komið upp bilun í vatnskerfinu og einungis um tvö tonn af fiski í lestinni.

Þórsnes er gerður út fyrir veiðar á línu og net og var næst stærsti línubátur landsins en nú hefur bæst í flotann Stormur HF sem er um 5 metrum lengri . Þórsnesið hefur enn sem komið er einungis verið á netaveiðum frá því hann kom til Stykkishólms síðastliðið sumar, þar á meðal á grálúðu síðastliðið haust.

„Við lögðum í gær en lentum í smá biliríi og þurfum að fara í land aftur. Það hefur verð frekar rólegt yfir þessu en við höfum mest verið fyrir vestan. Það er líka mikill straumur og dálítið erfitt að eiga við þetta,“ segir Margeir.

150 tonn í 4 róðrum
Þar áður hafði Þórsnesið landað 18. desember þannig að farið var að teygjast dálítið á jólafríinu. Þórsnesið er engu að síður aflahæst allra netabátanna með tæp 150 tonn í fjórum róðrum, þar af 52 tonn í einum róðri.

Margeir tók við Þórsnesinu í sumar en það var smíðað í Noregi árið 1996. Miklar endurbætur voru gerðar á því, meðal annars sett upp nýtt millidekk og frystigetan er um 15 tonn á sólarhring sem nýttist vel þegar skipið var á grálúðunni síðastliðið haust.

„Skipið hefur reynst mjög vel. Við vorum á grálúðunetum í frystingu í október og tókum eina fjóra túra. Það gekk ágætlega eftir að við létum auka frystigetuna hjá okkur. Við förum aftur á grálúðunet sennilega í mars en það er ekki útlit fyrir að við förum á línu þetta kvótaárið,“ segir Margeir.

Saltfiskur í Spánverja og Portúgali
14 manns eru á Þórsnesinu og segir Margeir fara ágætlega um mannskapinn en fiskiríið mætti vera meira. Það eigi þó eftir fara batnandi. Þorskurinn sé vænn en meiri kraftur mætti vera í veiðunum. Hann var á netum í nóvember fyrir vestan og þá var mokfiskirí og í desember, eða fram að verkfalli fengust um 200 tonn.

„Engu að síður hefur fiskiríið verið miklu meira undanfarnar vertíðir en hér áður fyrr. En það eru líka miklu færri bátar á netum. Ég hef fylgst með þessum bátum og þetta hefur eiginlega bara verið spurning um hvað þeir telja sig ráða við að taka. Við fengum talsvert að sprikla í hitteðfyrra og við enduðum í 1.600 til 1.700 tonnum yfir vertíðina.“

Afli Þórsnes er flattur í landi og framleiddur saltfiskur fyrir Spán og Portúgal. Fyrir þessa framleiðslu hentar netafiskurinn ágætlega.