fimmtudagur, 25. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikilvægi kolmunna í veiðum og fæðu

18. ágúst 2018 kl. 12:00

Anna Heiða Ólafsdóttir fiskifræðingur.

Veiðist mest en minnst útflutningsverðmæti


Mikilvægi kolmunna í uppsjávarveiðum Íslendinga hefur aukist mikið á undanförnum árum. Kolmunni var sú uppsjávartegund sem mest veiddist af á árinu 2017, alls 229.000 tonn. Til samanburðar veiddust rúm 124.000 tonn af síld, 167.300 tonn af makríl og 196.000 tonn af loðnu. Kolmunni skilar þó minnstum útflutningsverðmætum uppsjávartegundanna fjögurra, 5,5 milljörðum króna en loðnan mestu, 18,3 milljörðum króna. Helgast þetta af því að nánast allur kolmunni er unnin í mjöl.

gugu@fiskifrettir.is

Anna Heiða Ólafsdóttir fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun er sérfræðingur í uppsjávartegundum. Hún segir að þessi smávaxni uppsjávarfiskur sé með víðfeðma útbreiðslu í norðaustur Atlantshafi. Útbreiðslusvæði hans nái frá suðurströnd Spánar til Svalbarða og frá strönd meginlands Evrópu til austurstrandar Grænlands. Tegundin sé með árstíðarbundið far þar sem kynþroska fiskur, þriggja ára og eldri, hrygnir á landgrunninu vestan við Írland og Skotland á vormánuðum. Þegar hrygningu ljúki leiti fiskurinn norður í Noregshaf og vestur í áttina til Íslands í fæðuleit yfir sumarið.

Mikilvægur hlekkur í fæðukeðjunni

Uppeldissvæði kolmunna eru víða í Norður-Atlantshafi og hluti sumra árganga elst upp við Ísland. Kolmunni finnst við landgrunnsbrúnina fyrir austan, sunnan og vestan Ísland en ekki fyrir norðan þar sem fiskurinn forðast kalda sjóinn í Austur-Íslandsstraumnum. Vitað er að helstu fæðutegundir kolmunna eru ljósáta, loðna og marflær.

Kolmunni er mikilvægur hlekkur í fæðukeðju hafsins umhverfis Ísland þar sem hann étur aðallega átu og er bráð fyrir botnfiska eins og þorsk og ufsa. Mikilvægi kolmunnans sem bráðar er mest á suðausturmiðum, þar sem hann er mikilvægasta fæða botnfiska, og mikilvægið eykst með stærð afræningja þar sem hlutdeild kolmunna í fæðu hækkar eftir því sem þorskur og ufsi verða stærri. Leitast verður við að útskýra hvernig breytingar á magni og útbreiðslumynstri kolmunna í hafinu umhverfis Ísland undanfarna áratugi hafa áhrif á fæðunám botnfiska og hvort kolmunni keppi um fæðu við aðrar uppsjávartegundir.

Rannsóknir til framtíðar

Anna Heiða segir að helstu verkefnin í framtíðarrannsóknum á kolmunna við Ísland sé rannsókn á því hvaða þættir, stofnstærð eða umhverfi hafi áhrif á útbreiðslu og magn kolmunna í íslenskri landhelgi, bæði fyrir ókynþroska og kynþroska fisk. Til þurfi að koma úrvinnsla magasýnisgagna frá bolfiskum með áherslu á mikilvægi kolmunna sem fæðu og skoða sérstaklega mun milli landsvæða, árstíma og ára. Þá þurfi að afla þekkingar um fæðunám kolmunna við Ísland með úrvinnslu gagna og söfnun magasýna úr kolmunna. Rannsaka þurfi samkeppni um fæðu við aðra uppsjávarfiska, sérstaklega síld.