þriðjudagur, 11. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Miklar vonir bundnar við nýja hrognaþurrkunarvél

15. janúar 2009 kl. 12:29

Ný vél til þurrkunar á loðnuhrognum fyrir pökkun verður tekin í notkun hjá HB Granda á komandi vertíð. Hrognaþurrkunarvélin er afrakstur þróunarvinnu og samstarfs HB Granda og Skagans hf., sem er framleiðandi vélarinnar. Fram að þessu hafa loðnuhrognin verið þurrkuð í körum en sú aðferð er mjög kostnaðarsöm og útheimtir mikinn fjölda kara.

Einnig fylgir körunum áhætta varðandi ferskleika og gæði afurðarinnar. Þar sem loðnuhrogn eru ein dýrasta, íslenska sjávarafurðin, er mikilvægi vélar sem þessarar umtalsvert. Loðnuhrogna er neytt hrárra og ferskleiki og gæði eru því lykilatriði hvað varðar sölu og markaðssetningu afurðarinnar.

Haft er eftir Jónmundi Ingólfssyni hjá Skaganum hf. á heimasíðu HB Granda að  hrognaþurrkunarvélin sé nú full þróuð og hafi afurðin verið rannsökuð nákvæmlega af sérfræðingum, bæði á vegum HB Granda hf. og Matís ohf.  Niðurstöður rannsóknanna séu mjög jákvæðar og Jónmundur segir að tilkoma vélarinnar muni hafa í för með sér gríðarlega breytingu til hins betra í hrognavinnslunni.

Afköst hrognaþurrkunarvélarinnar er um 150 tonn af tilbúinni afurð til pökkunar á sólarhring.

Sjá nánar á heimasíðu HB Granda.