mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Miklu meiri þorskgengd en undanfarin ár?

13. mars 2008 kl. 18:32

,,Hér er miklu meiri þorskgengd en undanfarin ár og fiskurinn óvenju vænn. Hvar sem farið er um grunnslóð er bullandi veiði. Það skýtur því skökku við að á sama tíma þurfum við að þola mikla skerðingu í þorski,“ sagði Karl Ólafsson, skipstjóri á dragnótabátnum Erni KE, í samtali við Fiskifréttir í dag.

Karl sagði að þeir hefðu verið að veiðum úti af Reykjanesi undanfarið og fengið um 18-22 tonn af þorski og ýsu í róðri og hefði ekki verið mikið fyrir því haft.

,,Mikill tími fer í siglingar til reyna að finna svæði þar sem minna er af þorski þótt kvótastaða okkar sé þokkaleg. Grindavíkurbátarnir voru að draga upp netin í gær og fengu 10 tonn af þorski í trossu og fleiri dæmi má nefna um góðan afla. Hér er líka góð ýsuveiði en vandinn er sá að margir bátarnir eru kvótalitlir í þorski. Bátar, sem eru að reyna að ná sem mestri ýsu, eru því á endalausum flótta undan þorskinum. Þessi mikla þorskveiði er ekki einskorðuð við miðin hér fyrir sunnan. Sömu sögu er að segja í Breiðafirði og víða við landið.

Þorskurinn er mun stærri og í betri holdum en oft áður enda er hann fullur af loðnu. Hann hefur einnig haft nóga síldina að éta í vetur. Þá er mikil dreifing í stærð sem bendir til að um marga árganga sé að ræða í veiðinni. Fregnir hafa borist um það að mikil og góð þorskveiði hafi jafnframt verið í togararallinu sem nú stendur yfir en það hefur ekki fengist staðfest. Þegar meiri loðna mældist á dögunum var loðnukvótinn strax aukinn. Ef meira finnst af þorski en áður er auðvitað sjálfsagt að auka við þorskkvótann þegar í stað þannig að við sem veiðum þorsk sitjum við sama borð og loðnusjómenn,“ sagði Karl.