þriðjudagur, 25. september 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Milljarða högg ef ráðgjöf verður fylgt

10. október 2017 kl. 06:00

Makríll. (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Fari íslensk stjórnvöld í einu og öllu að ráðgjöfinni sem nú liggur fyrir mun það þýða skerðingu á útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi er nemur sjö til níu milljörðum króna.

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES ) birti í vikunni ráðgjöf sína um heildarafla úr þremur mikilvægum stofnum fyrir árið 2018; norsk-íslenskri síld, makríl og kolmunna. Ráðleggur ICES mikla skerðingu í veiði síldar og makríls.

Fari íslensk stjórnvöld í einu og öllu að ráðgjöfinni sem nú liggur fyrir mun það þýða skerðingu á útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi er nemur sjö til níu milljörðum króna samanborið við fyrri ár, er mat Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

35% lækkun
ICES leggur til að afli ársins 2018 af makríl verði ekki meiri en 551.000 tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2017 var rúm 857.000 tonn og gert er ráð fyrir að aflinn í ár verði tæplega 1,2 milljónir tonna. Er því um að ræða ríflega 35% lækkun í ráðlögðum heildarafla.

ICES ráðleggur jafnframt að afli í norsk-íslenskri síld verði ekki meiri en 546.000 tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2017 var 646 þúsund tonn og er því um 15% lækkun ráðlagðs heildarafla að ræða. ICES gerir ráð fyrir því að aflinn í ár verði rúmlega 805 þúsund tonn.

ICES leggur til að afli ársins 2018 í kolmunna verði ekki meiri en 1,39 milljón tonn, sem er áþekk ráðgjöf fyrir árið í ár, eða 1,34 milljón tonn.