fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minni afli færeyskra skipa í íslenskri lögsögu

22. júlí 2009 kl. 16:57

Alls voru ellefu færeysk línuveiðiskip á veiðum hér við land í júní. Heildarafli þeirra var tæp 616 tonn sem er mesti afli færeyskra línuveiðiskipa á einum mánuði á yfirstandandi ári. Mest var um ufsa í aflanum eða 141 tonn og keila var 136 tonn. Þorskaflinn var 101 tonn, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Alls hafa færeysk skip veitt 345 tonn af þorski það sem af er árinu og er heildarbotnfiskaflinn orðinn 1.595 tonn. Á sama tíma í fyrra voru færeysk skip búin að landa 2.180 tonnum, þar af var þorskaflinn 431 tonn sem er 25% meiri afli en í ár. Eitt færeyskt skip var hér að veiðum á uppsjávarfiski og tilkynnti um síldarafla upp á 585 tonn auk 20 tonna af kolmunna.

Grænlenskt skip, Polar nanoq var á úthafskarfaveiðum á Reykjaneshrygg. Heildarafli þess í júní nam 975 tonnum.

Nýjar töflur sem sýna skiptingu afla erlendra ríkja eftir tegundum og mánuðum er hægt að skoða á www.fiskistofa.is