miðvikudagur, 20. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minni afli á fyrsta fjórðungi fiskveiðiársins

15. desember 2015 kl. 14:06

Ýsa í kari á bryggju. (Mynd: Alfons Finnsson).

Heildaraflinn í botnfiski er þó um 2 þúsund tonnum meiri en á fyrra ári en minna veiddist af síld

Heildarafli íslenska fiskiskipaflotans á fyrstu 3 mánuðum fiskveiðiársins 2015/2016, frá 1. september 2015 til loka nóvember 2015, nam tæpum 260 þúsund tonnum upp úr sjó. Til samanburðar var aflinn á sama tímabili í fyrra rúm 286 þúsund tonn. Þetta er samdráttur í heildarafla sem nemur um 9,2% eða rúmum 26 þúsund tonnum. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu.  

Á fyrstu 3 mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip um 4 þúsund tonnum meira af þorski og um 2 þúsund tonnum meira af ýsu en á sama tímabili á fyrra ári. Þá dróst ufsaaflinn saman á milli ára um 3,5 þúsund tonn eða um 27%. Heildaraflinn í botnfiski er um 2 þúsund tonnum meiri en á fyrra ári.

Borið saman við sama tímabil á síðasta fiskveiðiári er nú mikill samdráttur í uppsjávarfiski.  Heildaraflinn fer milli ára úr rúmum 162 þúsund tonnum í tæp 134 þúsund tonn og dregst saman um 17,4%.  Eins og að ofan segir er það síldin sem þarna  skiptir sköpum.

Helstu tíðindi af afla í hryggleysingjum og krabbadýrum borið saman við sama tímabil fyrra árs er að aflinn er svo til sá sami milli ár eða 2,2 þúsund tonn í fyrra miðað við 2,3 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.