sunnudagur, 16. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mjöltankar fluttir frá Reykjavík til Vopnafjarðar

18. maí 2009 kl. 15:39

Umhverfi Reykjavíkurhafnar við Grandagarð mun taka töluverðum breytingum á næstunni því nú er unnið að undirbúningi á flutningi tíu mjöltanka, sem voru hluti fiskmjölsverksmiðju HB Granda, frá Reykjavík til Vopnafjarðar. Áður en tankarnir verða fluttir verða þeir þó hækkaðir um fjóra metra. Eftir hækkunina verða tankarnir 22 metra háir og munu þeir því í framtíðinni setja töluverðan svip á byggðina í Vopnafirði.

Fiskmjöls- og lýsisvinnslu var hætt í fiskmjölsverksmiðju HB Granda í Reykjavík í ársbyrjun 2005 en þá var brædd loðna í verksmiðjunni. Fyrirtækið starfrækir nú tvær fiskmjölsverksmiðjur á Akranesi og í Vopnafirði og í tengslum við flutninginn á mjöltönkunum til Vopnafjarðar verður ráðist í frekari framkvæmdir við verksmiðjuna á staðnum.

,,Það eru engir mjöltankar á Vopnafirði en þess í stað höfum við notast við mjölskemmu sem tekur um 1.800 tonn af mjöli í sekkjum. Auk þess höfum við leigt húsnæði sem tekur um 400 tonn af mjöli í sekkjum og við höfum síðan nýtt gamla frystigeymslu ef mikið safnast upp af mjöli en þar rúmast um 500 tonn. Þetta fyrirkomulag hefur oft verið þungt í vöfum enda vegur hver mjölsekkur um 1.500 kg,” segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávarsviðs HB Granda, en hann upplýsir að mjöltankarnir verði fluttir frá Reykjavík til Vopnafjarðar í júlímánuði nk. og hefur norskur flutningaprammi verið fenginn til að flytja tankana. Auk tankanna verða helstu tæki fiskmjölsverksmiðjunnar í Reykjavík flutt til Vopnafjarðar og munu þau nýtast þar í framtíðinni.

Sjá nánar á vef HB Granda, HÉR