fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mótsögn í strandveiðifrumvarpinu

Guðsteinn Bjarnason
14. apríl 2018 kl. 08:00

Fiskistofa bendir á að bráðabirgðaákvæði frumvarpsins um hámarksafla á ári stangist á við ákvæði laganna um hámarksafla á mánuði.

Strandveiðifrumvarp atvinnuveganefndar var tekið til fyrstu umræðu á þingi á þriðjudagskvöld og vísað til atvinnuveganefndar sem mun taka athugasemdir til frekari skoðunar áður en málið gengur til annarrar umræðu.

Meðal þeirra sem sendu inn umsagnir er Fiskistofa, sem telur ákveðna mótsögn vera milli núverandi laga og nýja frumvarpsins. Í núverandi lögum er nefnilega talað um að Fiskistofa „skuli stoppa veiðar ef heildarmagni mánaðarins er náð, en í bráðabirgðaákvæðinu er talað um að Fiskistofa skuli stöðva strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðibáta fari umfram heildarmagn ársins“.

Fiskistofa segir að bæði ákvæðin hljóti að gilda samtímis „og því verði stoppað í hverjum mánuði eftir að magn mánaðarins klárast. Það þýðir í raun áframhald núverandi kerfis,“ segir í umsögn Fiskistofu. Þetta þýði samt að „dögunum sem skip geta veitt á svæðum þar sem magnið klárast ekki, myndi fækka, og líklegt að það verði meiri afgangur í lok fiskveiðiársins.“

Ef hins vegar aðeins yrði miðað við nýja frumvarpið fengi hvert skip leyfi til að veiða 12 daga í hverjum mánuði þangað til heildarmagnið yrði búið, óháð heildarmagni hvers mánaðar og óháð svæði.

„Fiskistofa telur þessa stöðu óljósa, þar sem ljóst er að ekki sé hægt að miða við mánaðarlegt magn og árlegt magn á sama tíma.“

Bæði fagnað og mótmælt
Gert er ráð fyrir að hið breytta fyrirkomulag gildi til bráðabirgða í sumar. Lögin falla úr gildi 31. ágúst.

Meginbreytingin er tvíþætt. Annars vegar megi hvert skip veiða samtals 12 daga í hverjum mánuði, þá fjóra mánuði sem strandveiðar standa yfir, sem þýddi samtals 48 daga fá maíbyrjun til ágústloka. Hins vegar er gert ráð fyrir því að veiðarnar verði stöðvaðar þegar heildarafli fer yfir það magn sem ráðstafað er til strandveiða í sumar samkvæmt reglugerð.

Smábátasjómenn hafa bæði fagnað breytingunum að hluta og jafnframt mótmælt þeim harðlega að hluta. Gagnrýnin beinist ekki síst að óvissu um það hvort heildaraflinn dugi út veiðitímabilið auk þess sem þeir eru ósáttir við að veiðisvæðunum fjórum sé í reynd blandað saman í eitt heildarsvæði fyrir allt landið.

Alþingi óskaði sérstaklega eftir umsögnum frá sjö stofnunum og samtökum en einungis tvö þeirra, Fiskistofa og Landssamband smábátaeigenda. sendu umsögn sína áður en frestur rann út á mánudaginn. Byggðastofnun og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru meðal þeirra sem ekki skiluðu inn umsögn í tæka tíð.

Tryggja þarf 48 daga
Landssamband smábátasjómanna tekur fram í umsögn sinni að það sé sameiginlegur vettvangur 16 svæðisfélaga smábátaeigenda, sem hafa brugðist við frumvarpinu með ólíkum hætti. Öll séu þau þó sammála um að styðja boðaðar breytingar „svo framarlega sem tryggt sé að veiðidagar verði ekki færri en 48.”

Landsambandið bendir á að samkvæmt reglugerð sé gert ráð fyrir að 10.200 tonn komi í hlut strandveiðanna í ár, en auk þess hafi Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, sagt í fjölmiðlum að þúsund tonnum verði bætt við.

„Miðað við útreikninga sem byggðir eru á strandveiðum 2017 nægir heildaraflaviðmiðunin til að tryggja 48 veiðidaga á strandveiðum 2018,“ segir í umsögn LS. „Ennfremur gefur svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráherra við fyrirspurn Bjarna Jónssonar um ætlaðan afla í breyttu strandveiðikerfi óumdeilda vissu um að 12 dagar í mánuði, alls 48 veiðidagar á tímabilinu munu ekki leiða til að aflinn fari umfram 11.200 tonn.“

Axel Helgason, formaður LS, sagði í símtali við Fiskifréttir samstöðu um það meðal félaga sambandsins að tólf daga kerfið sé betra vegna aukins sveigjanleika í veiðunum. Þetta sé mikilvægt fordæmi sem geti jafnvel opnað fyrir enn meiri sveigjanleika, takist þessi tilraun vel í sumar. Menn gætu þá fært sína fjóra mánuði til eftir því hvað hentar best á hverju veiðisvæði, þannig að veiðar gætu hafist í mars eða staðið fram í september, en menn myndu þá byrja síðar í staðinn eða hætta fyrr.

Ufsinn þarf að skila tekjum
Þá hafa smábátasjómenn fagnað því að mega landa ufsa án þess að hann teljist til hámarksafla en gagnrýnt honum þurfi þá að landa sem VS-afla, því þá hafi þeir nánast engar tekjur af vinnunni. Beri jafnvel meiri kostnað af en sem nemur tekjunum.

„Ef árangur á að nást þegar hægt er að sækja einhvern ufsa um leið og sótt er í þorsk, þarf sú vinna að skila einhverjum hagnaði, en löndun ufsans sem VS skilar engu eftir gjöld og kostnað,“ segir til dæmis í umsögn strandveiðifélagsins Króks í Barðastrandasýslu.

„Þjóðin verður af miklum tekjum vegna vannýttra aflaheimilda í ufsa á hverju ári sem er skammarlegt þegar strandveiðimönnum skortir tekjur til að reka báta sína,“ segir ennfremur í umsögn smábátafélagsins Hrollaugs á Hornafirði.

Landssamband smábátaveiða leggur í umsögn sinni áherslu á að ufsi við strandveiðar „telji ekki til heildaraflaviðmiðunar og að ekki verði skylt að landa honum sem VS-afla.“