sunnudagur, 27. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Múkkinn þarf að leita annað

11. júlí 2017 kl. 15:21

Farnir að framleiða mjöl og lýsi í nýju Sólbergi ÓF

Sólberg ÓF, nýr frystitogari Ramma hf. á Siglufirði, hefur verið við veiðar og prófanir frá því í byrjun júní. Eins og jafnan þegar um nýtt skip er að ræða sem er hlaðið tæknibúnaði, hefur þurft að fínstilla búnaðinn og Sigþór Kjartansson skipstjóri vill enn gefa sér nokkurn tíma til þess.

„Við fórum út í eina fimm daga fyrir sjómannadag til prófa búnaðinn. Ýmsir vankantar komu í ljós, eins og gengur og gerist, og eitthvað sem mátti breyta og bæta. Við gáfum okkur viku til að laga það eftir sjómannadag. Svo fórum við út í frekari prófanir og veiðar og höfum með okkur ágæta menn hér um borð frá hinum ýmsu framleiðendum búnaðar. Meiningin er að fá búnaðinn til að virka á réttan hátt og við erum að vinna í því,“ segir Sigþór.

Gott lýsi með koníakslit

Hann segir mikinn tæknibúnað í þessu hátæknivædda skipi sem þurfi að tala rétt saman.

„Við erum farnir að fá okkur lýsi með morgunmatnum sem við framleiðum sjálfir. Hérna hafa verið með okkur tveir menn frá Vélsmiðjunni Héðni, sem framleiddi fyrir okkur mjöl- og lýsisverksmiðjuna. Lýsið bragðast vel og er fallegt á litinn eins og koníak. Við eldri mennirnir erum ánægðir með að fá okkar lýsi en ég hugsa að yngri mennirnir taki nú frekar prótein úr dunkum en lýsi úr bauk.“

Einnig hefur verið framleitt sýnishorn af mjöli í nýju verksmiðjunni. Starfsmenn Héðins um borð hafa gefið mjölinu góða einkunn.

Það er því fullkominn nýting á öllu fisk sem kemur upp úr sjó. „Já, það er óhætt að segja það. Þegar fram líða stundir og allt er farið að ganga snurðulaust held ég að múkkinn verði að leita eitthvert annað til þess að fá sér að éta.“

Fara pent í veiðarnar

Sigþór segir breytilegt veður hafi verið síðan farið var á sjó og yfir hásumarið fékk mannskapurinn að reyna 25 metra nýlega. „Við vorum að toga og skipið fór bara ljómandi vel með okkur. Sólbergið er skemmtilegra skip en við erum vanir. Mánabergið gamla stóð sig alltaf vel en það er svo mikla meira afl og stöðugleiki í nýja skipinu. Vistarverurnar eru fínar og við erum kannski loksins komnir inn í nútímann sem var svo sem alveg kominn tími til.“

35 eru í áhöfn og svo er önnur jafn fjölmenn skiptiáhöfn. Úthöldin verða yfirleitt um einn mánuður á sjó.

Sigþór segir að aflabrögðin hafi verið ágæt en hann kveðst hafa farið pent í veiðarnar meðan verið er að sníða af vankantana. Þegar allt verður komið í gott horf verður afkastagetan mikil. Frystigetan gæti orðið um 90 tonn upp úr sjó á sólarhring.

„Veiðin er ágæt en það þarf að fara varlega því ef eitthvað kemur upp viljum við ekki hafa of mikið af fiski um borð ef við þurfum að stoppa. Við reynum að fara þetta á skynseminni en ekki kappinu.“

Sólbergið landaði því sem veiddist fyrir sjómannadag en landaði ekki þegar komið var inn fyrir þarsíðustu helgi. „Við geymum það bara þar til við löndum næst. Aflinn geymist vel í frystilestunum og nóg er plássið.“