fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

NAMMCO leggur til kvóta á hnúfubak við Grænland

10. september 2008 kl. 09:15

Grænlendingar vilja út úr Aljóðahvalveiðiráðinu

NAMMCO, Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðið, ákvað á ársfundi sínum á Grænlandi nú í byrjun september að leggja til að veiðar Grænlendinga á hnúfubak við Vestur-Grænland fari ekki yfir 10 dýr á árinu 2009.

Þessi tillaga er byggð á niðurstöðum NAMMCO frá árinu 2006 þess efnis að slíkar veiðar væru vel innan marka sjálfbærni.

Jafnframt var það tekið með í myndina að stofn hnúfubaka við Vestur-Grænland á árinu 2007 væri stærri en árið 2005.

Á vef LÍÚ er vakin athygli á því að þetta sé í fyrsta sinn, sem NAMMCO ráðleggi ákveðinn kvóta. Til þessa hefur ráðið fyrst og fremst metið stöðu hvalastofna í Norður-Atlantshafi og lagt fram þau gögn fyrir vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC).

Nefndin hefur staðfest niðurstöður NAMMCO og vorið 2008 lýsti vísindanefndin því yfir að veiðar Grænlendinga á 10 hnúfubökum væru vel innan sjálfbærnimarka. Engu að síður hafnaði ársfundur ráðsins beiðni Grænlendinga um þessa veiði.

Þessi samþykkt gæti orðið upphafið að svæðabundinni stjórnun hvalveiða í Norður-Atlantshafi undir forystu NAMMCO, enda lögðu Norðmenn til á fundinum að NAMMCO tæki að sér veiðistjórnun á þessu svæði. Í fréttatilkynningu NAMMCO eftir fundinn segir að svæðisbundin stjórnun hval- og selveiða sé framundan.

Grænlendingar vilja út úr Alþjóðahvalveiðiráðinu   Grænlendingar hafa farið fram á það við dönsk stjórnvöld að Danmörk segir sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og NAMMCO taki upp veiðistjórnunina.

Finn Karlsen, sem fer með sjávarútvegs- og veiðimál í grænlensku landsstjórninni hefur heitið á Per Stig Möller utanríkisráðherra Dana, að vinda bráðan bug að úrsögn úr ráðinu vegna neikvæðra viðbragða þess við óskum Grænlendinga um að fá að veiða hnúfubak.

„Venjulega styður Danmörk óskir Grænlands um hvalakvóta í Alþjóðahvalveiðiráðinu, en í raun er það svo að atkvæði Danmerkur og Evrópusambandsins er eitt og hið sama,” segir Karlsen í samtali við grænlenska útvarpið.

Því má svo bæta við að hnúfubak hefur fjölgað gríðarlega á Íslandsmiðum síðustu áratugina, en hann hefur verið friðaður hér síðan árið 1964.