fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nautic kaupir ráðandi hlut í rússneskri verkfræðistofu

9. febrúar 2018 kl. 08:00

Undirbúningur að enn frekari útrás í skipasmíðahönnun fyrir Rússlandsmarkað


Nautic ehf. hefur gengið frá kaupum á ráðandi hlut í verkfræðistofu í Pétursborg í Rússlandi þar sem nú þegar starfa tíu sérfræðingar á sviði skipahönnunar starfa.  Gert er ráð fyrir að starfsmannafjöldi aukist eitthvað á næstu mánuðum. Þetta er liður í undirbúningi að stóraukinni verkefnastöðu Nautic og fyrirtækjaklasans Knarr Maritime í Rússlandi. Alfreð Tulinius, framkvæmdastjóri Nautic, segir gríðarlega uppbyggingu hafna og vera framundan í sjávarútvegi í landinu. Tækifæri til frekari útrásar þar séu víða, og þessi fjárfesting sé líka liður í að vera mun virkari þáttakandi á þeim markaði, með rússneskt fyrirtæki.


gugu@fiskifrettir.is

Eins og greint hefur verið frá hefur eitt stærsta útgerðarfélag Rússlands, Norebo Group, ákveðið að hefja á þessu ári smíði á sex frystitogurum samkvæmt hönnun Nautic.

Útgerð með 500.000 tonna kvóta

Norebo Group er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og heldur á stærsta kvótanum í landinu upp á um 500.000 tonn. Skipin sem Nautic hefur hannað kallast Enduro Bow. Þau eru 81 metra löng og 16 metra breið og verða notuð við veiðar við erfiðar aðstæður í Norður-Íshafi.

„Við bjóðum upp á heildarlausn sem felst í nýrri gerð skipa með fullkominni ferskfiskvinnslu, eða flakafrystitogara með öllum búnaði og uppsjávar- og fjölveiðiskip,“ segir Haraldur Árnason, framkvæmdastjóri Knarr Maritime.   Alfreð Tulinius framkvæmdastjóri Nautic bætir við að skipin verði markaðssett undir merkjum Knarr Maritime sem „KNARR eða KNARR skip“.

Alfreð heldur áfram og segir nafnið vera því mjög lýsandi fyrir nálgunina í heild sinni er kemur að skipum.

„Knerrir tryggðu forverum okkar mjög öfluga stöðu á tímum Víkinganna og skiluðu þeim til Íslands og víðar á sínum tíma.  Nú verður spennandi að sjá hversu djúpt inn í Rússland og víðar KNARR skilar okkur, með aðkomu fyrirtækjanna Brimrúnar, Kælismiðjunnar Frosts, Naust Marine, Nautic, Skagans 3X og Skipatækni.“

Alfreð segir að Nautic sé ekki að tjalda til einnar nætur í Rússlandi. Stefnt er að því að Nautic vinni að útfærslum á vinnuteikningum fyrir skipasmíðastöðina í Pétursborg þar sem skipin sex verða smíðuð.

„Við erum að færa okkur yfir í það að taka ekki að okkur svona verkefni nema að vera með allan pakkann í hönnun,“ segir Alfreð.

„Það er liður í að takmarka þá djúpu gjá sem getur myndast á milli grunnhönnunar og yfirfærslu yfir í atriða- og útfærsluhönnun fyrir framkvæmd smíðinnar. Með þessari nálgun tryggjum við að hugmyndafræðin skili sér beint og milliliðalaust yfir í framleiðslu skipsins og skipulag kerfisröra og rafmagnskapla virði þá plássnýtingu og fyrirkomulag í skipinu sem við ætlumst til.“

„Nautic Russia eða “Наутик Россия” eins og það kemur til með heita á rússnesku stefnir hreinlega að því að því að verða ein öflugsta hönnunarstofan innan Rússneska Sambandsríkisins í hönnun fiskiskipa, bæði austan og vestan Úralfjalla.  Það er svona 5 ára planið,“ segir Alfreð.

Hlutverk rússnesku verkfræðistofunnar

Hönnun skips skiptist grófum dráttum í þrjá ferla. Í fyrsta lagi er það grunnhugmynd að skipi sem fer inn í umsóknarferli hjá verkkaupa og inniheldur aðal fyrirkomulag á skipi, smíðalýsingu, línur skipsins, áætlað tanka- og lestarfyrirkomulag og áætlaðan stöðugleika. Annar ferillinn felur í sér hönnunarferli sem felur í sér flokkunarfélagsteikningar, sem eru teikningar sem sýna skipið nægilega vel til þess að það hljóti flokkun hjá flokkunarfélögum, eins og t.d. Norsk Veritas, Lloyd‘s en í þessu tilviki Russian Maritime Register of Shipping. Í þessum fasa þarf að hanna skipið þannig að það uppfylli reglugerðir og kröfur flokkunarfélagsins. Þar kemur til kasta verkfræðistofunnar í Pétursborg að aðlaga hönnunina þannig að hún standist rússneskar reglugerðir og kröfur.

„Þriðji ferillinn er sá að mata þær upplýsingar sem urðu til við gerð flokkunarfélagsteikninga inn í þrívíddarkerfi.  Að vísu blöndum við þessu hönnunarferli meira saman með þessari aðferðafræði, þannig að skilin verða ekki eins skörp og hér er lýst.  En að þessu loknu erum við með smíðaupplýsingar fyrir skipasmíðastöðina, beint fyrir þeirra framleiðslukerfi. Þetta er líka stór liður í að tryggja að við endum með skipið í þeim þyngdum sem við gerum ráð fyrir í okkar grunnhönnun.  Þarna erum við komnir inn í CAD/CAM heim eða samræmda tölvuhönnun og tölvustýrt framleiðsluferli,“ segir Alfreð.

Dregið úr ísingarhættu

Útlitshönnun skipanna dregur dám af nýsmíðaverkefnum Nautic fyrir HB Granda og Skipatækni fyrir Samherja og Fisk Seafood, nema hvað gengið er enn lengra í þeim efnum. Alfreð segir að viðsemjendurnir í Rússlandi sjái þetta nýja hönnunarform sem mikilvægan kost. Vandamálið við athafna sig á norðlægum slóðum eins og í Norður-Íshafinu og Okhotsk hafinu er ekki síst yfirísingarhætta. Byrði skipanna er þess vegna slétt og á framhlutanum eru hvorki opin þilför með búnaði, né rekkverk eða stög sem geta hlaðið á sig ís. Radarar eru inni í lokuðu, upphituðu rými og skipin sérstaklega hönnuð til að athafna sig í veðravítum undir miklu álagi. Þaðan kemur líka tegundarheiti skipanna sem er Enduro Design, og er afleiða af enska orðinu „Endurance“, samanber Enduro Bike eða Enduro Sport.

„Rússar hafa tekið okkur fagnandi og við fengið ótrúleg góð viðbrögð frá þeim. Þeir sjá að hér er á ferð ný útfærsla og hönnunarnálgun þar sem hugsað er út fyrir kassann. Það á jafnt við um útlit skipsins og þá staðreynd að það ver sig betur í öldu og safnar síður á sig ís. Auk þess er í stærri skipunum allt að þúsund fermetra vinnslusvæði með þriggja metra lofthæð, án þess að nokkur burðarsúla sé á svæðinu, sem truflar hagstæðasta vinnsluflæði sem hægt er að ná fram. Hönnunarnálgun skipanna tekur strax mið af því að ná þessum eiginleikum fram,“ segir Alfreð.

„Þetta er eitt af okkar „vörumerkjum“ ef svo má segja og verður gaman að sjá hvenær okkar samkeppnisaðilar fylgja í þau fótspor.  Við beitum vissri aðferðafræði við styrktaruppbyggingu skipanna til að tryggja nægan styrk og forðast titring á því þilfari sem við á.“

5,6-6,3 milljarðar hvert skip

Skipin sex sem Nautic hannar fyrir Norebo eru í undirbúningsfasa fyrir smíði.  Innan Norebo eru fjölmörg útgerðarfyrirtæki og um hverja umsókn fyrir smíði á skipi stendur eitt útgerðarfyrirtæki úr þeirra röðum.  Á opnum markaði má gera ráð fyrir að eitt skip af þessari stærð kosti um 36 milljónir evra í smíðum án vinnslubúnaðar, eða nálægt 4,5 milljörðum ÍSK. Vinnslubúnaðurinn hleypur svo á bilinu 10-15 milljónum evra eftir útfærslum þannig að heildarverð með vinnslubúnaði á hvert skip getur verið nálægt um 45-50 milljónir evra, á bilinu 5,6- 6,3 milljörðum ÍSK. Skipin verða markaðssett undir merkjum Knarr Maritime. Það þýðir að búnaðarfyrirtækin innan fyrirtækjaklasans, þ.e. Brimrún, Frost, Naust Marine, og Skaginn 3X vinna hörðum höndum að koma sér að með búnað sem varðar vinnslu-, frysti- og tæknibúnað fyrir skipin sex.

„Knarr samstarfið byggir þó ekki á hugmyndafræðinni allir fyrir einn og einn fyrir alla“, því við þurfum að viðhalda almennri samkeppnishæfni Knarr og þeirra einstöku fyrirtækja sem eru innan grúppunar, og þarf því hvert fyrirtæki að standa sig í að tryggja sig inní þau viðskipti sem við komum að.“

Hugmyndin að fyrirtækjasamstarfinu fæddist nánast á sama tíma í hugum Alfreðs og Ingólfs Árnasonar, forstjóra Skagans 3X. Það var alltaf ljóst í huga Alfreðs að til þess að geta haslað sér völl í Rússlandi og víðar yrði að vera hægt að bjóða upp á allan pakkann, það er að segja hönnun á skipi og allan búnað sem snýr að veiðum og vinnslu. Þar erum við Íslendingar öflugir vegna mikillar nándar við þau öflugu útgerðarfyrirtæki sem eru í landinu.  Samstarfsfyrirtækin koma hvert úr sinni áttinni. Skaginn 3X hefur fyrir löngu síðan skapað sér orð fyrir framleiðslu á hátæknivæddum vinnslu- og ofurkælibúnaði og Brimrún vakið heimsathygli fyrir útfærslu sinni á skjávegg í brúm og fleira.  Naust Marine er með mjög öfluga markaðstöðu í rafmagnsvindum, og Kælismiðjan Frost býður uppá margbreytilegar lausnir í kæli- og frystiþáttum.