fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Neyðast til að fleygja fiski fyrir jafnvirði 7 milljarða

30. september 2008 kl. 09:24

Brottkast skoskra fiskimanna

Fiskimenn í Skotlandi eru neyddir til þess að fleyja fiski á hverju ári að verðmæti 40 milljónir sterlingspunda eða jafnvirði 7 milljarða íslenskra króna vegna reglna Evrópusambandsins um að þeim fiski sem sjómenn hafa ekki kvóta fyrir skuli fleygt fyrir borð.

Þetta kom fram á ráðstefnu sem skoska ríkisstjórnin stóð fyrir í Edinborg í síðustu viku. Þar upplýsti Richard Lochhard sjávarútvegsráðherra að einni milljón tonna af fiski væri fleygt í Norðursjó á hverju ári.

Fyrir hvern einn þorsk sem skoskir fiskimenn landa er öðrum kastað í sjóinn. Ráðstefnan er upphafið af herferð sem skoska ríkisstjórnin stendur fyrir og miðar að því að ná fram breytingum á reglum ESB í þessu efni.

Sjávarútvegsráðherrann sagði að sér blöskraði sú mikla sóun sem brottkastið hefði í för með sér og líkti því við brjálæði. ,, Í hvaða iðnaði teldist það ásættanlegt að fleygja svona stórum hluta af því sem framleitt væri.

Fáránlegar reglur Evrópusambandsins gera það að verkum að á tímum fæðuskorts í heiminum og hækkandi fiskverðs hér heima er fiskimönnum okkar gert að fleygja fiski að verðmæti allt að 40 milljónum sterlingspunda sem fínasti markaður er fyrir,” sagði hann.

Nokkrar ástæður eru fyrir því að sjómenn neyðast til að fleygja í sjóinn miklu af markaðshæfum fiski, einkum þorski úr Norðursjó. Ein skýringin er sú að úthlutaður þorskkvóti dugar ekki fyrir meðafla þorsks þegar verið er að veiða aðrar tegundir.

Skoska ríkisstjórnin telur að hægt sé að draga verulega úr brottkasti ef heildarveiði flotans verði minnkuð þannig að stærri hluti af markaðshæfum afla komi á land. Jafnframt er lagt til að veiðarfærum verði breytt á þann veg að þau hleypi undirmálsfiski út, að smáfiskasvæðum verði lokað í ríkara mæli en gert hefur verið og að leyfilegum veiðidögum báta verði fækkað. Skýrt er frá þessu á vefsíðu skosku ríkisstjórnarinnar.