sunnudagur, 27. maí 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nígeríumarkaður að taka við sér

17. júlí 2017 kl. 10:30

Afurðir frá Ice Group á markaði í Nígeríu. MYND / ICE GROUP

Ice Group býr sig undir að reisa þriðju þurrkverksmiðjuna í Noregi

Markaðurinn fyrir þurrkaðar fiskvörur hefur sýnt ýmis batamerki undanfarið eftir áfallið á síðasta ári, þegar verðhrun á olíu setti verulegt strik í reikninginn. Þetta gerir það að verkum að íslenska fyrirtækið Ice Group, sem selt hefur herta fiskhausa til Nígeríu í stórum stíl, horfir nú björtum augum til framtíðar.

„Breytingin er sú að þó verðið sé lágt eins og það hefur verið frá því hrunið þá selst allt saman núna,“ segir Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Ice Group, í stuttu símaspjalli við Fiskifréttir. „Það er enginn birgðasöfnun hjá okkur núna, það fer allt út og verðið er byrjað að fara fara upp.“

Ítarleg umfjöllun um Ice Group er í nýjasta heftir norska tímaritsins Norsk Fiskerinæring. Þar kom meðal annars fram að Ice Group er farið að huga að því að setja upp þriðju þurrkverksmiðjuna í Noregi.

„Jú, við erum að horfa í kringum okkur ef þessi þróun á markaðnum heldur áfram,“ segir Jón. „Við keyptum búnað úr verksmiðju sem hætti starfsemi þannig að við erum komin með öll tæki og tól sem þarf til framleiðslunnar. Ef af verður þurfum við bara að finna húsnæði eða byggja nýtt yfir starfsemina.“

Fyrirtækið starfrækir nú tvær verksmiðjur í Noregi með samtals um 50 starfsmenn. Askur heitir önnur þeirra og er hún í Kvalsundi sem er skammt frá Hammerfest í Norður-Noregi. Hún hefur verið starfrækt frá árinu 2006. Embla heitir hin verksmiðjan og hefur hún verið starfandi frá 2012 í Bátsfirði í Norðausturhluta Noregs.

Árið 2016 var erfitt 
Í norska tímaritinu kemur fram að samtals geti þessar tvær verksmiðjur þurrkað allt að 20 þúsund tonnum af hráefni, en það gefur af sér ríflega 4.500 tonn af þurrkaðri vöru. Á síðasta ári hafi fyrirtækið þó aðeins selt um 1.600 tonn frá Noregi, ásamt því að selja álíka mikið frá framleiðendum á Íslandi, en Ice Group hefur um árabil séð um sölu á þurrkaðri vöru til Nígeríu fyrir íslensk fyrirtæki.

Vegna efnahagsástandsins í Nígeríu varð árið 2016 hið versta í sögu fyrirtækisins. Árið áður hafði Ice Group selt 2.500 tonn af þurrkuðum hausum frá Noregi og um það bil 3.000 tonn frá Íslandi.

Nígería er helsti markaðurinn fyrir þurrkaðar fiskafurðir og Ice Group er langstærsta fyrirtækið á þeim markaði.

Jón segir að Nígeríumenn noti herta fiskhausa aðallega í grýtur eða kássur og líka í súpur.

„Það er aðallega bragðið sem þeir eru að sækjast eftir og svo prótínmagnið,“ segir hann. Annars staðar í heiminum er lítill markaður fyrir þessa vöru. Það er þá helst í löndum þar sem eitthvað er af fólki frá Nígeríu.

Aldrei orðið tap
Salan til Nígeríu hefur margfaldast á þeim árum sem fyrirtækið hefur starfað og aldrei hefur orðið tap á framleiðslunni.

„Veltan jókst mikið allt til ársins 2015,“ er haft eftir Jóni í Norsk Fiskerinæring. „En þá hrundi olíuverðið, efnahagurinn í Nígeríu brast og gengið varð okkur mótfallið. Ég vil helst gleyma árinu í fyrra.“

Nú er hins vegar annað hljóð að komast í strokkinn. Nígeríumarkaður að taka við sér og allt að komast aftur í fullan gang. Jón segist vonast til þess að á næsta ári verði framleiðslan verði um 5.500 tonn, eða álíka mikil og 2015. Verðið sé að vísu nokkru lægra núna, en allt standi það vonandi til bóta.

„Við erum bjartsýnir eins og alltaf í þessum bransa,“ segir Jón og hlær í símtalinu við Fiskifréttir.

gudsteinn@fiskifrettir.is