mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Niðurstaða í loðnumælingu á næstu sólarhringum

25. janúar 2010 kl. 12:00

Á næstu tveimur sólarhringum mun það væntanlega ráðast hvort meira er á ferðinni af loðnu en hingað til hefur mælst, það er að segja ef friður verður til rannsókna fyrir veðri. Loðnumæling undanfarna daga hefur ekki skilað neinni viðbót.

,,Súlan EA hefur verið að leita vestan við Kolbeinseyjarhrygginn en ekkert fundið. Skipið þurfti að hverfa frá seinnipartinn í gær vegna brælu. Börkur NK tók á sig sveig sunnan við Halann og inn á hann á leið sinni af síldarmiðunum um helgina. Hann leitaði þar úti í kanti án þess að finna neitt,” sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir nú skömmu fyrir hádegi í dag.

Að sögn Þorsteins er Árni Friðriksson nú í mælingum fyrir austan land á ,,loðnugöngu II” sem tvívegis hefur mælst 100-120 þúsund tonn. Árni er á leiðinni norður á bóginn og hann og Súlan eiga eftir að fara yfir svæðið úti af Norðausturlandi. Þess er vænst að loðna sem lóðaði á við hafísinn norður af Horni og Húnaflóa 6.-8. janúar síðastliðinn og ekki hefur fundist aftur sé nú komin á svæðið einhvers staðar milli Sléttu og Langaness. 

,,Það verður ekki fyrr en að lokinni þessari yfirferð skipanna sem hægt verður að segja eitthvað ákveðið, en hingað til hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem gefa vísbendingu um að ástandið sé öðru vísi en við höfum nú þegar mælt,” sagði Þorsteinn. Hann gerði ráð fyrir að á næstu tveimur sólarhringum næðist að fara yfir svæðið norðaustur af landinu, ef veður héldist skaplegt.