föstudagur, 26. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn undirbúa stórsókn á Kínamarkaði

Svavar Hávarðsson
14. október 2018 kl. 09:00

Alibaba samsteypan er metin á rúmlega 500 milljarða bandaríkjadollara – og er því eitt af tíu stærstu fyrirtækjum heims. Virkir viðskiptavinir voru 580 milljónir manna um mitt þetta ár. Mynd/EPA

Kínverskur netrisi leitar samninga um allan heim til að stórauka framboð af sjávarfangi.


Fyrir nokkrum vikum undirritaði Norska sjávarafurðaráðið (Norges sjømatråd) samkomulag við stórmarkaðskeðjuna Hema Fresh um aukna áherslu á sölu norsks eldislax í Kína. Hema Fresh er í eigu netverslunar- og tæknirisans Alibaba, sem hefur ævintýraleg umsvif á heimsvísu. Við undirritun kom fram að samkvæmt mati fyrirtækisins sé áætlað að neysla Kínverja á eldislaxi verði orðin 240.000 tonn að fimm til sjö árum liðnum. Norðmenn ætla sér stóra sneið af þeirri köku.

Samkomulagið leiðir hugann að orðum J. Michael Evans, forstjóra alþjóðaviðskipta innan Alibaba samsteypunnar, sem sagði frá því á ráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum i Bergen fyrr á þessu ári að fyrirtækið stefndi að því að mynda tengsl við leiðandi framleiðendur og sölufyrirtæki sjávarafurða um allan heim. Markmiðið væri að stórauka framboð á sjávarafurðum á hinum risavaxna kínverska markaði. Alibaba, sem þegar er ógnarstór fyrirtækjasamsteypa, ætlar sér það eitt að vera leiðandi í slíkum viðskiptum. Má líta á samkomulagið við Norðmenn þeim augum að ef einhver ætlar sér stóra hluta á Kínamarkaði þá verði það helst gert í samstarfi við Alibaba.

22 en verða tvö þúsund

Evans sagði í erindi sínu á ráðstefnunni að sífellt fleiri kínverskir neytendur væru meðvitaðir um sjálfbæra framleiðslu og uppruna þeirrar vöru sem þeir kaupa. Til að svara þessu kalli eru allar vörur sem boðnar eru til sölu innan Hema verslunarkeðjunnar rekjanlegar – og þetta er styrkur Noregs hvað eldisfisk varðar, að hans mati.

Nú þegar er ferskt sjávarfang – og reyndar lifandi – stærsti vöruflokkurinn sem er boðinn viðskiptavinum Hema keðjunnar, en stórmarkaðir hennar voru 22 í árslok 2017. Hins vegar hyggst Alibaba fjölga þeim í tvö þúsund á næstu fimm árum. Er þetta til marks um þær stærðir sem markaðsmál í Kína snúast um, og ekki síst þegar Alibaba á í hlut.

Þess utan selur Alibaba gríðarlegt magn af sjávarfangi með öðrum leiðum, ekki síst í gegnum netverslun sína Tmall. SalmonBusiness sagði frá því fyrir skemmstu að ef leitarorðið Norwegian salmon eða Atlantic salmon er slegið inn á vefsíðum Alibaba þá væru um þúsund leiðir til slíkra viðskipta fyrir stærri fyrirtæki. Magnið sem viðkomandi fyrirtæki þarf að kaupa hleypur á einu til 600 tonnum í einstökum viðskiptum.

Þessi stærðargráða kemur kannski ekki svo mjög á óvart þegar haft er í huga að stofnandi Alibaba – Jack Ma – hefur sett sér það takmark að viðskiptavinir fyrirtækja í hans eigu, undir merkjum Alibaba, verði fleiri en tveir milljarðar manna árið 2035. Ef þær fyrirætlanir ganga eftir þá er það mat sérfræðinga að fyrirtækið verði orðið fimmta stærsta hagkerfi heims – en þá verði aðeins Kína, Evrópusambandið, Japan og Bandaríkin stærri. Alibaba muni því keppa við þjóðríki og ríkjasambönd þegar kemur að stærð og veltu – ekki önnur fyrirtæki. Ennþá er þó Amazon sennilega kóngurinn í þessum geira viðskipta – alla vega þegar kemur að markaðsvirði fyrirtækja.

Allur heimurinn undir

Evans vék þess utan að því að starfsmenn Alibaba leita nú hófanna á meðal forsvarsmanna sjávarútvegs- og sölufyrirtækja í Bandaríkjunum, Kanada, Suður-Ameríku og Evrópu. Það sem boðið er eru fjölbreyttir kostir – allt frá því að Alibaba kaupi vörur og selji áfram. Einnig er í boði að fyrirtækin setji upp sínar eigin vefgáttir, eða verslanir, undir einhverjum af þeim sölugáttum sem Alibaba ræður yfir og er afar vinsæl leið lítilla og meðalstórra fyrirtækja víða í Asíu, og þegar er komin góð reynsla á. Það eru fyrirtæki sem hafa náð góðum árangri með því að fara undir stóran faðm netrisans og ná þannig athygli fjölda neytenda sem þeir hefðu annars átt litla möguleika á að nálgast.

Stjarnfræðilegar stærðir

Evans birti upplýsingar um stærð og möguleika innan kínverska markaðarins. Í stuttu máli eru þeir stjarnfræðilegir og illskiljanlegir þeim sem starfa innan örmarkaðar eins og Íslands. Kínverskir neytendur líta mjög út fyrir sín landamæri í vöruvali – sem skiptir miklu máli þegar kemur að sjávarafurðum og öðrum varningi ýmiskonar. Snjalltæknin mun síðan breyta hlutum hratt, sagði Evans. Yngri aldurshópar eru dyggir viðskiptavinir; sem kemur ekki á óvart þar sem netviðskipti eru þar rauði þráðurinn. Þessi hópur fer stækkandi og kaupgeta hans einnig þegar fram líða stundir. Þessi hópur ferðast víða og mikið, ólíkt fyrri kynslóðum og hefur áhuga á því að kaupa vörur sem ekki eru framleiddar heima fyrir. Á það ekki síst við um matvöru.

„Milljónir ungra Kínverja ferðast reglulega. Þegar heim er komið segja þau síðan vinum og skyldmennum frá upplifun sinni, ekki síst á samfélagsmiðlum,“ sagði Evans um þann gríðarstóra markað sem Kína er orðinn og vöxtinn sem er framundan. Hann bætti við að innan fárra ára munu milljónaborgir í Kína losa annað hundraðið, og það styðji viðskiptamódel Alibaba eitt og sér. Það að þjónusta viðskiptavini með það að markmiði að það sé sem auðveldast að nálgast nauðsynjar og það taki lítinn tíma frá daglegu amstri.