fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Banni ESB við verslun með selaafurðir skotið til WTO

9. nóvember 2009 kl. 15:00

Norsk stjórnvöld hafa snúið sér formlega til Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) þar sem þau telja að bann Evrópusambandsins við viðskiptum með selaafurðir brjóti í bága við grundvallarreglur WTO, að því er fram kemur í World Fishing.

ESB ákvað 16. september síðastliðinn að banna verslun með selaafurðir og tekur bannið gildi í ágúst 2010. Bæði Noregur og Kanada hafa nú farið fram á það að WTO miðli málum í deilum ríkjanna við ESB um þetta máli.

,,Selveiðar eru snar þáttur í stefnu Noregs varðandi nýtingu sjávardýra. Bannið veikir möguleika okkar á því að framfylgja vistvænni stjórnun á náttúruauðlindum okkar. Það er líka hættulegt fordæmi um inngrip í viðskipti með sjávarafurðir sem eru byggðar á sjálfbærri nýtingu,“ segir Vidar Ulriksen, ráðuneytisstjóri í norska sjávarútvegsráðuneytinu.

Þegar ágreiningsmálum er formlega vísað til WTO með þessum hætti ber stofnuninni að kanna hvort mögulegt sé að finna lausn sem báðir aðilar sætta sig við. Ef málsaðilar ná ekki saman getur sá sem skýtur málinu til WTO óskað eftir úrskurði stofnunarinnar sem er sambærilegur við niðurstöður gerðardóms.