mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Kolsvartur mánuður fyrir þorskinn

8. maí 2009 kl. 15:00

Verð á þorskafurðum hélt áfram að falla í Noregi í apríl. Tala menn þar í landi um kolsvartan mánuð fyrir þorskinn. Verðlækkunin er misjöfn eftir afurðum. Mest er hún á frystum þorski. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur frystur þorskur lækkað í verði um 36,8%. Saltfiskur hefur lækkað um 22,6% á sama tíma, fersk þorskflök hafa lækkað um 21,4%, söltuð þorskflök um 12,3% en minnst er verðlækkunin á blokk, eða 4,7%.

Þessar upplýsingar koma fram á vef norska blaðsins Fiskeribladet/Fiskaren. Fiskiðnaður í Norður-Noregi á í miklum vanda vegna minni umsvifa saltfiskverkenda í vetur. Þannig hefur heildarútflutningur á saltfiskafurðum minnkað um 60% á fyrstu fjórum mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Einnig hefur orðið samdráttur í útflutningi á frystum flökum. Á móti kemur að aukning er í öðrum afurðum, svo sem ferskum þorskflökum. Í heild jókst útflutningur á þorskafurðum í tonnum talið frá Noregi um 13,6%, fór úr 26.324 tonnum fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 í 29.902 tonn á sama tíma í ár.

Markaðurinn í Portúgal brást algjörlega. Á tímabilinu janúar til apríl í fyrra voru flutt út um 11 þúsund tonn af fiskafurðum frá Noregi til Portúgals. Á sama tíma í ár nam útflutningurinn þangað aðeins 1.839 tonnum!