föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Lundastofninum hrakar eins og á Íslandi

15. júlí 2009 kl. 15:00

Það er víðar en á Íslandi sem lundinn á erfitt uppdráttar. Á eyjunni Røst, sem tilheyrir Lófótensvæðinu í Noregi, er lundinn farinn að leita í byggð eftir fæðu og þar hafa allir ungar drepist í ár.

Norskir fuglafræðingar hafa af þessu miklar áhyggjur og þeir segja að útlitið sé dökkt varðandi lífsskilyrði lundans meðfram allri strönd Nordlands.

Vísindamenn eru nú á Røst til að leita að skýringu á því hvers vegna lundanum tókst ekki að koma upp ungum. Þeir segja að lundinn fái ekki næga fæðu úr sjónum og því hafi ungarnir drepist. ,,Þetta er enn eitt slæma árið fyrir lundann,“ segja þeir.

Fara verður aftur til ársins 2006 til að finna síðasta árið sem ungar lundans komust á legg á þessu svæði. Lundastofninum hefur stöðugt hrakað undanfarna áratugi og nú er svo komið að stofninn er aðeins þriðjungur af því sem hann var fyrir 30 árum.

Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren