mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Met í útflutningi sjávarafurða

9. desember 2009 kl. 12:58

Verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi það sem af er árinu nemur 40,4 milljörðum norskra króna, jafnvirði 873 milljarða íslenskra króna. Verðmætið er þegar orðið meira en á öllu árinu í fyrra sem var metár.

Með sjávarafurðum er bæði átt við villtan fisk úr sjó og eldisfisk. Útflutningur sjávarafurða í nóvember jókst um 15% í magni og nam salan í verðmætum 4,8 milljörðum norskra króna sem er nýtt met, en það er jafnvirði 104 milljarða íslenskra króna.

,,Þetta sýnir að eftirspurn eftir norskum sjávarafurðum heldur áfram að vera mjög sterk á alþjóðlegum markaði og verð áfram hátt á sama tíma og margar aðrar útflutningsgreinar hafa mátt þola andstreymi í efnahagskreppunni,” segir talsmaður Norska fiskútflutningsráðsins í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish.

Því má bæta við til samanburðar að verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Íslandi á síðasta ári nam 171 milljarði króna.