mánudagur, 10. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Met slegið í útflutningi á loðnu og síld

7. júlí 2009 kl. 14:59

Útflutningur á afurðum úr uppsjávarfiski frá Noregi nam 3,4 milljörðum norskra króna (68 milljörðum ísl. kr.) fyrstu sex mánuði ársins 2009. Þetta er 56% aukning frá sama tíma árið 2008.

Uppsjávarfiskur hefur aldrei haft jafnmikla þýðingu í hálfsársuppgjöri í útflutningstölum fyrir norskar sjávarafurðir. Í ár nam hálfsársútflutningurinn hálfum milljarði meir en á metárinu 2001. Rússland og Úkraína eru stærstu kaupendur á afurðum unnum úr norskum uppsjávarfiski. Til Rússlands jókst útflutningurinn um 74% en um 48% til Úkraínu.

Flutt var út síld fyrir 2,1 milljarð norskra króna á fyrri helmingi ársins 2009 sem er 28% aukning frá fyrri árshelmingi 2008. Á sama tíma var flutt út loðna fyrir 545 miljónir króna og er aukning um 329%, sem helgast af því að til skamms tíma var loðnuveiðibann í Barentshafi. Meira af loðnunni var unnið til manneldis en áður. Á fyrstu sex mánuðum ársins fluttu Norðmenn út 125 þúsund tonn af frystri loðnu; 51 þúsund tonn fór til Rússlands, 32 þúsund tonn til Úkraínu, 16 þúsund tonn til Japans og 10 þúsund tonn til Kína.

Heimild: IntraFish