miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur og ESB semja um aðgerðir gegn brottkasti

10. desember 2008 kl. 16:37

Náðst hefur samkomulag milli Noregs og Evrópusambandsins um tvíhliða veiðiheimildir á næsta ári en þessar þjóðir nýta fiskistofna á sameiginlegum hafsvæðum.

Jafnframt fengu Norðmenn því framgengt að gripið yrði til ákveðinna aðgerða til þess að stemma stigu við brottkasti en á það hafa þeir lagt mikla áherslu.

Í Noregi ríkir algjört bann við brottkasti á fiski, rétt eins og á Íslandi, en í ESB er beinlínis skylt að fleygja fiski sem viðkomandi skip hefur ekki kvóta fyrir eða sem nær ekki lágmarksstærð. Því hefur verið lýst yfir af hálfu ESB að við endurskoðun á sjávarútvegsstefnu sambandsins, sem ljúka á fyrir 2012, verði bann við brottkasti tekið til skoðunar.

 Meðal þess sem fulltrúar Noregs og ESB komust að samkomulagi um að þessu sinni var að leggja bann við því að aðeins verðmætasta fiskinn væri hirtur en afganginum kastað fyrir borð.

Þá urðu þjóðirnar ásáttar um að koma á fót kerfi um lokun og opnun veiðisvæða í Norðursjó til þess að vernda ungfisk og hrygningarsvæði.

Erlend veiðiskip sem veiða í norskri lögsögu þurfa að sýna fram á að þau hafi kvóta sem samsvari þeirri aflasamsetningu sem sé á þeim miðum sem þau fiska á. Þá krefjast Norðmenn að allur fiskur sem veiddur er í norskri lögsögu komi til hafnar, hvar svo sem honum sé landað. Þau skip sem brjóta þá reglu eiga á hættu að verða neitað um veiðileyfi við Noreg.