mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn setja 340 milljónir í markaðsstarf á þorski

12. febrúar 2009 kl. 14:57

Norðmenn ætla á næstunni að verja sem svarar 340 milljónum ísl. króna til markaðsstarfs á þorski. Þessi markaðsherferð er samstarfsverkefni norskra stjórnvalda og samtaka í norskum sjávarútvegi að því er segir í frétt frá IntraFish í gær. Stutt er síðan skýrt var frá því á þessum vettvangi að norsk stjórnvöld hefðu ákveðið að stórauka lán og ábyrgðir til fyrirtækja í norskum sjávarútvegi.

Ríflega helmingur fjárhæðarinnar sem hér um ræðir kemur beint frá stjórnvöldum eða sem svarar 195 millj. ísl. króna en eftistöðvarnar eru greiddar af útflutningsráði norskra sjávarafurða og sölusamtökum í norskum sjávarútvegi.

Markmið herferðarinnar er að glæða sölu m.a. í Portúgal, Frakklandi og á Spáni auk markaða heimafyrir og í Svíþjóð. Verð á þorski á mörkuðum hefur farið lækkandi á undanförnum vikum og mánuðum, m.a. vegna þess að neytendur hafa í auknum mæli snúið sér að ódýrari tegundum að sögn Terje Martinussen, framkvæmdastjóra útflutningsráðs norskra sjávarafurða.

Frá þessu er skýrt á vef LÍÚ.