miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn sækja um MSC-umhverfismerkið á þorsk og ýsu

5. september 2008 kl. 10:13

Norska fiskútflutningsráðið hefur óskað eftir því við samtökin Marine Stuartship Council (MSC) að Norðmenn fái að nota MSC-umhverfismerkið á þorsk og ýsu sem þeir veiða í eigin lögsögu.

Þetta eru töluverð tíðindi því gætt hefur tortryggni í garð MSC meðal hagsmunaðila og stjórnvalda í Noregi rétt eins og á Íslandi, meðal annars vegna náinna tengsla samtakanna við náttúrverndarsjóðinn World Wide Fund.

Þessi umsókn er lögð fram með stuðningi helstu hagsmunasamtaka í norskum sjávarútvegi, þar með talin samtök norskra útvegsmanna, samtök fiskframleiðenda og eldisfyrirtækja og Norges Fiskarlag sem eru heildarsamtök sjómanna og útvegsmanna.

Með umsókninni  um umhverfisvottun fyrir þorsk og ýsu eru mikilvægustu fisktegundir Norðmanna komnar í vottunarferli því áður hafa verið sendar hliðstæðar umsóknir fyrir ufsa, síld og makríl. Norðmenn munu veiða 170 þúsund tonn af þorski og 77 þúsund tonn af ýsu á þessu ári.

Terje Marinussen forstjóri norska fiskútflutningsráðsins segir að kaupendur í Evrópu, fyrst og fremst í Þýskalandi og Englandi, hafi þrýst á að málið færi í þennan farveg. Þeir óski eftir að fá umhverfismerktan fisk. Ekki sé hægt að lofa því að hærra verð fáist fyrir hann en aðgangur að markaðnum verði auðveldari.