föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn takmarka framleiðslu Japansloðnu við 20.000 tonn

1. mars 2009 kl. 09:00

í samræmi við þarfir markaðarins

Norskir framleiðendur hrognaloðnu hafa lýst því yfir að þeir muni takmarka kaup sín af hrognafullri loðnu af veiðiskipunum við það magn sem unnt sé að markaðsetja í Japan sem sé 20.000 tonn miðað við fullunna vöru.

Veiðunum verður stjórnað þannig að öll skipin hafi möguleika á að taka þátt í að veiða í þessa manneldisvinnslu sem gefur mestar tekjur. Það þýðir að hvert skip getur nýtt 18% af kvóta sínum með þessum hætti. Norska síldarsamlagið hvetur eigendur skipanna til þess að vera viðbúna með stuttum fyrirvara þegar að því komi að hrognafylling loðnunnar nái því stigi að hún verði frystingarhæf.

Loðnuveiðibann hefur verið í gildi í Barentshafi síðustu fimm árin og því hafa Íslendingar setið einir að hinum verðmæta loðnumarkaði í Japan og reyndar fleiri löndum líka undanfarin ár. Nú hefur dæmið algjörlega snúist við. Íslendingar sitja eftir með sárt ennið vegna loðnuveiðibanns en Norðmenn njóta góðs af ástandinu.