fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn týndu loðnunni

19. febrúar 2009 kl. 13:40

Það er ekki á vísan að róa þegar loðnan er annars vegar, hvorki við Ísland né í Barentshafi. Norski loðnuflotinn lá í landi um tíma meðan þrefað var um verð fyrir loðnuna, en eftir að botn fékkst í það mál finnst loðnan ekki aftur.

Nokkur norsk loðnuskip hafa leitað loðnunnar undanfarna daga norður af Noregi, meðal annars í námunda við gráa svæðið milli lögsagna Noregs og Rússlands en án árangurs, að því er fram kemur á vef norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren. Rússnesk skip hafa einnig verið við leit. Á meðan hefur bróðurpartur norska loðnuflotans legið við bryggju og beðið átekta. Um hálfur mánuður er síðan loðnan fannst síðast norður af Noregi.

Loðnuveiðar eru nú leyfðar í Barentshafi eftir fimm ára veiðibann. Heildarkvótinn er 390.000 tonn, þar af koma 223.000 tonn í hlut Norðmanna og afgangurinn í hlut Rússa.

Samtök strandveiðiflotans í Noregi, Kystfiskarlaget, krefjast þess að loðnuveiðar verði stöðvaðar, en að öðrum kosti verði kvótarnir minnkaðir því ljóst sé að loðnustofninn sé minni en búist hafi verið við. Loðnan sé aðalfæða þorsksins og ef of hart sé gengið að loðnustofninum með veiðum setji það uppbyggingu þorskstofnsins í Barentshafi í voða og leiði til minni tekna af fiskveiðunum í heild.