föstudagur, 14. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðmenn vongóðir um að saltfisksala glæðist

13. mars 2009 kl. 12:01

Teikn á lofti um að botninum sé náð

Norskir saltfiskútflytjendur vona að nú sé verð komið til botns á mörkuðunum í Suður-Evrópu og því ætti greiðast úr með sölu á næstu vikum. Birgðir í hefðbundnum saltfisklöndum eru í lágmarki en sala til neytenda hefur heldur glæðst.

Norskir útflytjendur á saltfiski segja að ýmis teikn séu á lofti um að nú fari kreppunni á mörkuðunum senn að ljúka.  Frá Portúgal berast þær fréttir að sala til neytenda hafi aukist um 20% í liðnum mánuði eftir sölutregðu frá því haust.  Kaupendur hafa haldið að sér höndum frá því fyrir jól vegna vona um en lægra verð.  Birgðir þar eru því litlar en markaðurin að hressast.

Núna standi mál svo að kaupendur í Portúgal geri sér vonir um enn lægra verð en viti að senn verði geymslur þeirra tómar.  Verðlækkunin nemur 20 til 30% frá því í haust.  Því er annað hvort að sætta sig við verð eins og það er nú eða að engan saltfisk að selja.

Lengi grunaði Norðmenn að Rússar hefðu eyðilagt fyrir með því að senda mikið af ódýrum saltfiski til Miðjarðarhafslandanna.  Þessi Rússafiskur virðist þó ekki hafa komið fram í sölu.  Salfiskkaupendur virðast hafa beðið átekta og látið ganga á birgðir sínar meðan fiskurinn hefur safnast upp í hefðbundnum saltfiskverkunarlöndum.

Mikill þrýstingur hefur verið á sölusamtök sjómanna í Noregi að lækka verð til sjómanna.  Það hefur ekki gengið eftir og nú vonast menn til að markaðurinn nái jafnvægi á ný en með fjórðungi lægra verði en var þegar það var hæst í fyrra. Skýrt er frá þessu á ruv.is