miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norsk-íslensk síld: Fyrsta síldin veidd í íslenskri lögsögu á vertíðinni

19. maí 2009 kl. 15:00

Veiðar á norsk-íslenskri síld í íslenskri lögsögu hófust í dag er Jóna Eðvalds SF og Ásgrímur Halldórsson SF fengu um 400-500 tonna kast úti af Langanesi. Skipin eru þar á partrollveiðum.

Skipin fóru út um síðustu helgi til að leita að síldinni. Sigurður Bjarnason, skipstjóri á Jónu Eðvalds SF, sagði í samtali við Fiskifréttir að þeir hefðu fundið síld á ákveðnum blettum en þeir hefðu þó ekki leitað víða eftir að síldin fannst. Þeir reyndu að taka eitt hol í gærkvöldi um 180 mílur úti af Langanesi en misstu það. Þegar rætt var við Sigurð upp úr hádegi í dag var verið að dæla síld um borð í Ásgrím Halldórsson SF úr fyrsta kastinu sem gaf veiði en það var tekið um 170 mílur úti af Langanesi. Var búið að dæla tæpum 200 tonnum um borð en Sigurður taldi líklegt að þeir hefðu fengið um 400-500 tonn í þessu kasti. Síldin er full af átu.

Jóna Eðvalds SF og Ásgrímur Halldórsson SF eru einu íslensku skipin sem eru byrjuð veiðar á norsk-íslensku síldinni. Birtingur NK er á leiðinni á miðin. Fleiri skip eru svo væntanleg síðar í vikunni og eftir helgi.

Íslensk skip mega veiða 250 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld í ár, þar af um 44 þúsund tonn í norskri lögsögu. Í janúar veiddu tvö íslensk skip um 3.900 tonn innan norsku lögsögunnar.