miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norski sjávarútvegsráðherrann: Ekki kaupa makrílmjöl frá Íslandi

18. ágúst 2009 kl. 12:00

Helga Pedersen sjávarútvegsráðherra Noregs hvetur norskar fiskeldisstöðvar til að sniðganga fiskimjöl frá Íslandi sem búið sé til úr makríl. Þetta ítrekar hún í samtali á vefsíðu norska sjávarútvegsblaðsins Fiskeribladet/Fiskaren í dag.

Hún segist þó ekki áforma að grípa til neinna refsiaðgerða gegn íslensku fiskimjöli eða fiskeldisfyrirtækjum sem kaupi það. Hún  vísar til þess að mögulegt sé greina innihald mjölsins sem keypt sé og lætur nægja að hvetja til þess að makrílmjöl sé ekki keypt.

Fram kemur í fréttinni að norska sjávarútvegsráðuneytið ætli að halda fund með landssamtökum sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja (FHL) um kaup á fiskimjöli frá Íslandi. Ole-Erik Leröy formaður samtakanna segist hafa meðtekið hvatningu sjávarútvegsráðherrans en vill ekki tjá sig um hana á þessu stigi.