mánudagur, 17. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norski sjávarútvegsráðherrann: Kaupið ekki íslenskt makrílmjöl

24. mars 2009 kl. 12:31

Sjávarútvegsráðherrar Noregs og Bretlands hafa átt í viðræðum um aðgerðir til að stöðva makrílveiðar Íslendinga. Norski ráðherrann, Helga Pedersen, hvetur kaupendur þar í landi til að sniðganga íslenskt fiskimjöl úr makríl og segir að veiðar Íslendinga óábyrgar. Einn stærsti kaupandi fiskimjöls í Noregi segir að taka beri óskir ráðherrans til greina.

Þetta kemur fram á vef RÚV.

Það voru upphaflega samtök norskra útvegsmanna sem kröfðust þess að ríkisstjórnin  beitti sér gegn Íslendingum vegna makrílveiðanna.  Núna er upplýst að Helga Pedersen sjávarútvegsráðherra hefur rætt við breskan starfsbróður sinn um veiðarnar og samræmdar aðgerðir gegn Íslendingum.  Engin niðurstaðan er þó fengin.

Helga upplýsir einnig við norsku fréttastofuna NTB að hún hafa vilji að norskir kaupendur á fiskimjöli hætti að kaupa mjöl úr makríl frá Íslandi.  Mjöl frá Íslandi hefur verið unnið í laxafóður en framleiðendur í Noregi fullyrða að þeir hafi reynt að forðast íslenska makrílmjölið og muni gera það áfram.  Þeir taki tilmæli ráðherra til greina.

Norskir útvegsmenn brugðust mjög hart við þegar íslensk stjórnvöld gáfu út einhliða makrílkvóta upp 112 þúsund tonn í liðinni viku. Norðmenn, Færeyingar og ríki Evrópusambandsins hafa til þessa skipt makrílafla úr Norður-Atlantshafi á milli sín og ekki viljað deila stofninum með Íslendingum eftir að makríll fór að veiðast í íslenskri lögsögu fyrir tveimur árum.