miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskir strandveiðimenn vilja stöðva styrki til þorskeldis

12. maí 2009 kl. 15:00

Stjórn félags norskra strandveiðimanna krefst þess að styrkveitingum til þorskeldis verði tafarlaust hætt og að kveðið verði skýrt á um það hvaða hlutverki þorskeldi eigi í raun að gegna í framtíðinni.

Þessar upplýsingar koma fram á vef norska blaðsins Fiskeribladet/Fiskaren. Félag norskra strandveiðimanna (Norges Kystfiskarlag) leggst gegn því að stefnt sé að því að þorskeldi verði helsti vaxtarbroddur í atvinnulífinu við sjávarsíðuna. Félagið vill að stjórnmálamenn beini heldur sjónum sínum að hefðbundnum sjávarútvegi. Félagið segist ekki geta sætt sig við að opinbert fé sé notað til að styrkja keppinaut þeirra í framleiðslu þorskafurða. Aukið þorskeldi þýði aðeins lægra verð fyrir afurðir úr villtum þorski. Því hvert kíló af eldisþorski sem færi á markaðinn drægi úr möguleikum strandveiðimanna á að afsetja sinn fisk. Strandveiðimenn segjast ekki geta sætt sig við það að rótgrónar útgerðir verði undir í samkeppninni við þorskeldið sem hlýtur opinbera styrki. Slíkt sé skýrt brot á öllum alþjóðlegum reglum um heilbrigða viðskiptahætti.