fimmtudagur, 24. janúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskur ríkisborgari grunaður um stórfellt smygl á laxi til Kína

Guðsteinn Bjarnason
13. apríl 2018 kl. 10:40

Norskur eldislax.

Trond Williksen, forstjóri norska laxeldisfyrirtækisins SalMar, sagði af sér á mánudaginn, fáeinum dögum eftir að upp komst um laxasmyglið.

Fréttavefurinn Undercurrent News skýrði frá þessu og greinir jafnframt frá því að kona sem handtekin hefur verið í Kína vegna málsins hafi um árabil verið í samstarfi við SalMar. Williksen hefur viðurkennt að hafa verið í samstarfi við konuna um árabil.

Haft er eftir honum á Undercurrent News að SalMar hafi stofnað fyrirtæki með henni í Singapúr.

Þá vitnar norska Fiskeribladet í tölvupóst frá Williksen þar sem hann segir konuna hafa verið í samstarfi við SalMar í áratug og einnig verið viðskiptavinur fyrirtækisins.

„Hún hefur keypt fisk af okkur og selt áfram á mörkuðum í Asíu. Við höfum starfað saman og skipst á hugmyndum og þróað áætlanir um það hvernig við gætum síðar meir eflt samstarfið enn frekar,“ skrifar hann í tölvupóstinum.

Nafn konunnar hefur ekki verið gert opinbert en Undercurrent News telur ljóst að þar sé um að ræða Yimin Dong. Hún er sögð vera kínversk en með norskan ríkisborgararétt.

Til Kína gegnum Víetnam
Hún er sökuð um að hafa flutt lax frá Noregi til Víetnam og þaðan hafi honum verið smyglað til Kína. Kínversk stjórnvöld hafa lagt mat á verðmæti smyglsins, og segja það nema 630 milljónum kínverskra júana sem er jafnvirði nærri tíu milljarða króna.

Kínverskir fjölmiðlar hafa einnig sagt handteknu konuna heita Dong. Þá hefur Undercurrent News komist að því að Yimin Dong eigi tæpan helming í fyrirtækinu SalMar Pacific, sem er skráð í Singapúr. Meðal framkvæmdastjóra í því fyrirtæki eru bæði Gustav Witzoe, stofnandi SalMar, og Geir Waero, sem er sölu- og markaðsstjóri hjá SalMar.

SalMar á drjúgan hluta í íslenska laxeldisfyrirtækisinu Arnarlax, með 34 prósent eignarhluta, og þar með einn stærsti hagsmunaaðilinn í laxeldi hér á landi. Williksen hefur í viðtölum hér á landi sagst sjá mikil tækifæri í íslensku laxeldi.

SalMar sendi frá sér tilkynningu á mánudag þar sem greint er frá því að Olav-Andreas Ervik muni taka við forstjórastarfinu af Williksen.

Nærri tíu milljarðar króna
Fréttavefurinn Seafood Source greinir frá því að eftir að upp komst um laxasmyglið hafi verð á laxi í Kína snarhækkað, enda hafi framboðið hrunið eftir að smyglið var stöðvað. Kílóverðið þar sé komið upp í nærri 1.800 krónur en síðasta sumar var meðalverðið þar um 1.100 krónur.

Sé miðað við meðalverð upp á 1.100 krónur má telja að smyglað hafi verið um níu þúsund tonnum af laxi, með hliðsjón af því mati kínverskra stjórnvalda að smyglið hafi skilað tíu milljörðum króna.

Seafood Source segir hætt við því að einhverjir muni nú notfæra sér tækifærið og hefja smygl á ný til Kína vegna þess að sem stendur nægir framboð ekki til að anna eftirspurn.