miðvikudagur, 19. desember 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðursjór: Öðrum hverjum þorski kastað fyrir borð

22. júní 2009 kl. 15:00

Fiskveiðifloti ESB landaði á síðasta ári um 27 þúsund tonnum af þorski sem veiddust í Norðursjó en brottkast er talið hafa numið 21 þúsund tonni. Þetta þýðir að næstum öðrum hverjum þorski sem veiddist hafi verið kastað fyrir borð.

Þessar upplýsingar koma fram á vef IntraFish og er vitnað í tölur frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES). Hlutfall brottkasts af heildarþorskveiði í Norðursjó í fyrra var það hæsta í tíu ár. Á árunum 2000 til 2003 var brottkastið “aðeins” 5-6 þúsund tonn. Talið er að nú sé stærri þorski kastað í vaxandi mæli, þriggja og fjögurra ára þorski sem að stórum hluta er orðinn kynþroska.

ICES leggur til að á næsta ári megi veiða um 40 þúsund tonn af þorski í Norðursjó að því gefnu að ESB standi við fyrirheit um að draga verulega úr sóknarþunga í þorskstofninn.

Þorskkvótinn í Norðursjó er 28.800 tonn í ár en fiskifræðingar lögðu til að þorskveiðar yrðu bannaðar. Þeir höfðu miklar áhyggjur af því að ekki tækist að koma böndum á veiðarnar og því væri ekki hægt að byggja stofninn upp öðru vísi en með veiðibanni.